Genið kom með innflutningi 1932

Búvísindamaður telur nær áreiðanlegt að verndandi gen gegn riðuveiki sem fannst í hrútnum Gimsteini á Þernunesi við Reyðarfjörð og þrettán ám hafi komið með innflutningi á kynbótafé af Border Leicester-kyni frá Skotlandi árið 1932. Hann telur að búið sé að ganga úr skugga um að ARR-genið sé ekki í öðrum skepnum, það hafi að mestu farið í niðurskurði fjár á Austurlandi á sínum tíma og kynbótum í margar kynslóðir.

Jón Viðar Jónmundsson, búvísindamaður á eftirlaunum, hefur verið að kanna hvaðan ARR-genið sem er verndandi gegn riðuveiki hafi borist í féð á Þernunesi. Hann segir að sauðfjárbændur geti verið þakklátir Karólínu Elísabetardóttur, sauðfjárbónda í Hvammshlíð, fyrir að hafa forgöngu um sýnatöku og greiningu á genum í íslenska sauðfjárstofninum með tilliti til riðuveiki. Það hafi orðið til þess að verndandi gen fannst í Þernunesi. Menn hafi ekki áttað sig á því hvernig genið hafi borist í þetta fé og Eyþór Einarsson sauðfjárræktarráðunautur hafi leitað álits hans.

Hægt að rekja genin til þessarar einu kindar

„Ég taldi öruggt að leita þyrfti innan búsins enda var vitað að ekki hefði verið keypt fé þangað á seinni árum. Ég skoðaði gamlar hrútasýningaskýrslur og sá þar hrút sem ég taldi að væri skotablendingur og kom inn á búið í Þernunesi 1970. Þetta er Gestur frá Gestsstöðum í Fáskrúðsfirði,“ segir Jón Viðar.

Hann segist hafa fengið gamlar fjárbækur frá Steini Björnssyni á Þernunesi og séð af þeim að hægt væri að rekja genin til þessarar einu kindar. Hann hafi einnig fengið staðfest með samtölum við Friðrik Steinsson á Hafranesi sem man mjög vel eftir fé frá þessum árum að margt fé með einkenni blendingsfjár hafi verið á þessum slóðum. Telur Jón Viðar að með þessu sé komin fullvissa um að Gestur hafi verið skotablendingur.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu á fimmtudag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert