Guðrún verður frábær en Jón þarf að fá að klára

Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun funda á sunnudaginn, en þar mun Bjarni …
Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun funda á sunnudaginn, en þar mun Bjarni Benediktsson líklega tilkynna um ráðherrabreytingar þannig að Guðrún Hafsteinsdóttir komi inn í ríkisstjórnina fyrir Jón Gunnarsson. Þingmenn Suðurkjördæmis segjast styðja breytinguna, en segja Jón hafa staðið sig vel. Samsett mynd

Hugsanleg ráðherraskipti innan ráðherraliðs Sjálfstæðisflokksins eru framundan en boðað hefur verið til ríkisráðsfundar á kvenréttindadaginn, 19. júní.

Á sunnudag, daginn fyrir ríkisráðsfund, hefur þingflokkur Sjálfstæðisflokksins verið boðaður til fundar þar sem ákvörðun um væntanlega ráðherraskipti verður tekin.

Þingmenn Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi eru einróma um að standa eigi við gefið loforð til Guðrúnar Hafsteinsdóttur, 1. þingmanns Suðurkjördæmis, um ráðherrastól. Sjálfstæðisflokkurinn vann sigur í Suðurkjördæmi í Alþingiskosningunum árið 2021 og ráðgert var að Guðrún, sem oddviti flokksins í kjördæminu, tæki við af Jóni Gunnarssyni dómsmálaráðherra. 

Almenn ánægja hefur þó ríkt um störf Jóns Gunnarssonar í embætti dómsmálaráðherra meðal þingmanna flokksins í Suðurkjördæmi og þrýst hefur verið á Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann flokksins, úr báðum áttum.

Víkur Jón sem þótt hefur standa sig vel?

Fyrir liggur að Bjarni sá fram á að Guðrún Hafsteinsdóttir kæmi inn í ríkisstjórn þegar eitt og hálft ár væri liðið af kjörtímabilinu. Sá tími er liðinn. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur verið nefndur sem sá ráðherra sem víkja eigi úr embætti til að rýma fyrir flokkssystur sinni.

Kjördæmisráð Sjáfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi skoraði nýlega á formanninn að efna gefin loforð um að gera Guðrúnu Hafsteinsdóttur að dómsmálaráðherra. Segir kjördæmisráðið í áskorun sinni að kjördæmið sé eina landsbyggðarkjördæmið þar sem flokkurinn hlaut 1. þingmann kjörinn.  

Jón Gunnarsson er umdeildur en margir telja hann hafa staðið sig vel í embætti. Hefur Bjarna meðal annars borist áskoranir frá Sjálfstæðismönnum í Fjarðabyggð og fulltrúaráði flokksins í Grindavík um að hann verði áfram í ráðherraliði flokksins. Grindavík er í Suðurkjördæmi, kjördæmi Guðrúnar. Ljóst er að staðan er snúin og kannski hefur Bjarni þess vegna dregið ákvörðun sína en hvaða augum líta þingmenn Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi málið?

Vildu sjá þingmann úr kjördæminu í ríkisstjórn frá upphafi

Vilhjálmur Árnason þingmaður Suðurkjördæmis og flokksbróðir Jóns og Guðrúnar segist í samtali við mbl.is að sjálfsögðu alltaf hafa stutt það að ráðherra komi úr kjördæminu.

„Þingmenn kjördæmisins vildu sjá þingmann úr kjördæminu í ríkisstjórn frá upphafi.“

Vilhjálmur segir þó að Jón hafi staðið sig mjög vel í embætti og að almenn ánægja ríki með hans störf. Hann segist reyndar ekki vera mjög upptekinn að þessari umræðu. Hann vilji fremur ræða málefnin.

Birgir Þórarinsson þingmaður flokksins úr kjördæminu segir vinnubrögðin eðlileg og vísar þar í að strax frá upphafi hafi verið ákveðið að Guðrún kæmi inn í ríkisstjórn á þessum tímapunkti. Segist hann hafa átt í góðu samstarfi við Guðrúnu og að hann viti að hún muni sinna sínu embætti vel.

Aðspurður um stöðu Jóns Gunnarssonar segir hann að það sé búið að ákveða þessi skipti.

„Þetta er fínasta fólk sem ég kann vel við. Það geta ekki allir verið ráðherrar. Þetta er ákvörðun formannsins og ég styð hann í þessum verkum.“

Sá á kvölina sem á völina

Ásmundur Friðriksson þingmaður Sjálfstæðisflokks í Suðurkjördæmi segist hafa stutt uppástungu formanns flokksins frá upphafi um að Guðrún yrði ráðherra þegar 18 mánuðir væru liðnir af kjörtímabilinu. Hann segir ekkert nýtt í því í sjálfu sér.

Aðspurður segist hann ekki vita hvernig þetta fari.

„Ég veit ekki hvað verður um Jón, ég hefði kosið að hann yrði líka áfram. Mér finnst Jón hafa staðið sig afar vel og það er óþarfi að taka hann úr þeim stóli en formaðurinn kemur með tillögu í þeim efnum. Sá á kvölina sem á völina.“

Segir Ásmundur í ljósi þeirrar umræðu sem hefur verið um störf Jóns og framgöngu sé hann, eins og hann segir sjálfur, í miðri á, og þurfi að fá tækifæri til að klára þau mikilvægu verkefni sem honum hafi verið falin.

„Það þarf alltaf einhver að fara en við erum allir vinir í þessum þingflokki. Þarna er fólk sem hefur staðið sig vel og vilja örugglega allir halda áfram. Þetta loforð var gefið Guðrúnu og hennar kjördæmi og við það verður staðið. Það þarf bara að gera það á einhvern hátt.

Sagt var að Jón yrði í 18 mánuði en svo kemur í ljós að hann er að skila gríðarmikilli vinnu og hefur átt mikinn þátt í því að flokkurinn heldur sjó í fylgismálunum. Þannig held ég að Guðrún verði frábær viðbót við ríkisstjórnina og að það sé engin ástæða að Jón fari.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert