Hitamet slegið um 0,1 gráðu í dag

Heitt hefur verið á Egilsstöðum. Mynd úr safni.
Heitt hefur verið á Egilsstöðum. Mynd úr safni. mbl.is/Ari Páll Karlsson

Árshitamet féll í dag við Egilsstaðaflugvöll en þar mældust 27,9 gráður. Upp kom bilun í tölvukerfum veðurstofunnar svo möguleiki er á því að hitinn hafi mælst hærri annars staðar á landinu. Hitamet féll síðast í gær. 

Þetta staðfestir Óli Þór Árnason, veðurfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hann segir enga leið að vita hvort hitinn hafi farið hærra á öðrum stöðum. Til dæmis hafi vantað mælingar frá Hallormsstað en mælingar vanti þaðan frá klukkan tólf til þrjú.

„Það var þá sem var hlýjast á Egilsstaðaflugvelli þannig að það kæmi mér ekkert á óvart. Þeir gætu allaveganna verið jafn hlýir, jafnvel hlýrri heldur en Egilsstaðaflugvöllur. Þeir voru hærri en Egilsstaðaflugvöllur í gær þannig það er ekki útilokað en það þarf ekki að vera, það eru nokkur göt en það sem mældist á Egilsstaðaflugvelli í dag það er það heitasta sem hefur mælst á árinu,“ segir Óli.

Hann vonast til þess að gögn dagsins verði til í kerfinu en það komi líklega ekki í ljós fyrr en á mánudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert