„Menningarslys“ – Átta bíó horfin á braut

Einn eitt kvikmyndahúsið leggur upp laupana um næstu mánaðamót.
Einn eitt kvikmyndahúsið leggur upp laupana um næstu mánaðamót. Samsett mynd

Frá árinu 1980 hafa sjö kvikmyndahús týnt tölunni í Reykjavík. Það áttunda í röðinni, Háskólabíó, bætist við um næstu mánaðamót.

Gamla bíó við Ingólfsstræti, Nýja bíó við Lækjargötu, Hafnarbíó við gatnamót Barónsstígs og Skúlagötu, Tónabíó í Skipholti, Stjörnubíó við Laugaveg, Austurbæjarbíó og síðar Bíóborgin við Snorrabraut og Regnboginn við Hverfisgötu eru öll horfin á braut. Reyndar tók listræna kvikmyndahúsið Bíó Paradís við af Regnboganum og er enn starfrækt á sama stað. Óvissa hefur þó stundum verið um rekstur þess og m.a. bauðst Háskólabíó til að hýsa Bíó Paradís snemma árs 2020. 

Eftir að Sena sagði upp samningi sínum um rekstur Háskólabíós frá og með 1. júlí bætist þetta gamalgróna bíó, sem hóf starfsemi sína árið 1962, við þennan bíókirkjugarð ef svo má kalla.

Kort/mbl.is

Bíó Paradís stendur því eitt eftir í miðbænum. Annars staðar í Reykjavík eru þó enn starfrækt Laugarásbíó í Laugarási, sem var stofnað 1956, Bíóhöllin í Mjóddinni, frá árinu 1982, Kringlubíó og Egilshöll. Í Smáralind í Kópavogi er síðan Smárabíó.  

„Ömurlegt“

Konstantín Mikael Mikaelsson, framkvæmdastjóri Smárabíós, annast rekstur kvikmyndahúss Háskólabíós og segir vissulega sjónarsvipti af því úr íslenskri bíómenningu.

„Auðvitað finnst okkur þetta alveg ömurlegt því við höfum rekið tvö bíóhús á Stór-Reykjavíkursvæðinu í mjög langan tíma og núna erum við komnir niður í eitt. Þetta er ekki staður sem við vildum vera á en við neyðumst til þess því reksturinn borgar sig ekki fyrir okkur,“ segir Konstantín, spurður út í brotthvarf bíósins.

Tjöldin dregin fyrir í aðalsal Háskólabíós.
Tjöldin dregin fyrir í aðalsal Háskólabíós. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hann bendir á að Háskólabíó hafi verið í mikilli samkeppni við Bíó Paradís, sem lifir á styrkjum. „Þótt þeir hafi verið í mini arthouse-myndum og við meira í íslenskum- og afþreyingarmyndum þá eru þetta hús í svipuðum markhópi. Þessi tími er svolítið liðinn að tvö hús á svipuðu svæði geti rekið sig.“

Óvíst er hvort haldið verður sérstaklega upp á lokasýninguna í Háskólabíói 30. júní, enda ekki um sérstakan gleðiviðburð að ræða fyrir kvikmyndaunnendur. Þrjár myndir verða í sýningu þennan dag, þar á meðal Asteroid City úr smiðju Wes Anderson, sem er síðasta frumsýnda mynd Háskólabíós.

Biðröð í Gamla bíó
Biðröð í Gamla bíó mbl.is/Ólafur K. Magnússon

Álíka aðsókn og 2019

Spurður út í aðsókn í bíó segir Konstantín að hún sé vissulega minni en hún var vel fyrir Covid en sé engu að síður orðin svipuð og hún var árið 2019. Aðsókn í bíó hafi því aukist, bæði á meðal unglinga annars vegar og fjölskyldna hins vegar. Helst segir hann að elsti hópurinn yfir fimmtugt hafi ekki að fullu leyti látið sjá sig aftur.

„Við erum núna um 90% af því sem var 2019. Það er bjart fram undan í bíó.“

Tónabíó á árum áður.
Tónabíó á árum áður.

Er þetta ekkert að fara að deyja út eftir tíu ár?

„Ég hef enga trú á því. Alveg eins og leikhúsin sem eru búin að fá mikla samkeppni í gengum tíðina þá mun bíórekstur halda áfram um ókomna tíð, enda er Ísland mikil bíóþjóð,“ svarar Konstantín en segir landslagið vissulega breytt. Fólk horfi meira heima í stofu á löglegt eða ólöglegt streymi en bíómarkaðurinn sé enn sterkur.

Nýja Bíó.
Nýja Bíó.

Þessu til stuðnings bendir hann á að til stendur að bæta við tveimur nýjum sölum í Smárabíó í byrjun næsta árs, en fimm salir eru þar fyrir. Hann segir bíórekstur í verslunarmiðstöðvum almennt ganga vel og það eigi mjög vel saman að hafa veitingastaði í nágrenni við bíó.

„Þetta hefur færst meira út í jaðrana en Smárabíó er sennilega mest miðsvæðis bíó á landinu gagnvart fólksfjölda,“ bætir Konstantín við, spurður út í þróunina varðandi bíóin. Álíka þróun hafi átt sér stað erlendis.

Smárabíó í Smáralind.
Smárabíó í Smáralind.

Nánast hætt að fara í bíó

Úlfhildur Dagsdóttir, bókmenntafræðingur, bókaverja og kvikmyndaáhugakona, sér eftir Háskólabíói, rétt eins og Konstantín og margir aðrir kvikmyndaáhugamenn.

„Mér finnst þetta bara hræðilegt því ég er bíósjúklingur. Ég er það gömul að ég var í Austurbæjarbíói og Stjörnubíói en ég bý í miðbænum,“ segir hún og nefnir að áður en hún flutti í miðbæinn bjó hún í Breiðholtinu og fór þá oft í Sambíóin Álfabakka. 

Stjörnubíó.
Stjörnubíó. Ljósmynd/Billi/Brynjar Gunnarsson

„Svo þegar ég flyt í miðbæinn hverfa bíóin þaðan. Ég vona að það hafi ekki verið orsakasamhengi en þetta hefur gert það að verkum að ég er eiginlega hætt að fara í bíó.“

Úlfhildur á ekki bíl og fer allra sinna ferða gangandi og í strætó. Vegna stopulla strætósamgangna á kvöldin og um helgar hafa bíóferðirnar því nánast lagst af. Helst fór hún í Háskólabíó og svo í Kringlubíó þegar faðir hennar bjó þar í nágrenninu er hann var á lífi.

Úlfhildur Dagsdóttir.
Úlfhildur Dagsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Mér stórbrá“

„Mér stórbrá við þessar fréttir,“ bætir hún við um brotthvarf Háskólabíós af sjónarsviðinu og minnist á sögu þess og hönnun, sem er eins og myndavél í laginu. „Það er eitthvað voðalegt við að það sé ekki lengur. Þetta er bara menningarslys.“ 

Úlfhildur viðurkennir að landslagið hafi breyst mjög, til dæmis hvað varðar streymisveitur. Ekki sé þó hægt að líkja þeim við það að sitja í myrkum bíósal, sem sé allt önnur upplifun heldur en að horfa á þætti heima í stofu og standa stöðugt upp og setja á pásu.

Poppið í bíó klikkar ekki.
Poppið í bíó klikkar ekki. mbl.is/Golli

Hún nefnir að allt snúist um lúxussali nú til dags og telur enga þörf á því að lokka fólk stöðugt í bíó á þann hátt. „Bara að vera inni í bíósal með ilmandi popplykt og eina birtan eru ljósin sem sýna neyðarútganga. Þessi stemning, að sitja og bíða eftir að bíómynd byrji, þetta er svolítið heimur sem er að hverfa.“

Bíóborgin.
Bíóborgin. mbl.is/Jim Smart

Allt snýst um litla skammta

Úlfhildur bendir á að við séum í auknum mæli að lesa og taka inn upplýsingar í litlum skömmtum, til dæmis á netinu, þar á meðal á Youtube og í þáttum á streymisveitum. Fólki vilji geta gengið inn í heim sem það þekkir. Miklar vinsældir þáttaraða og ofurhetjumynda beri vott um það.   

Netflix.
Netflix. AFP

„Kannski er þetta bara eðlileg þróun og ég er mjög hamingjusöm með að vera risaeðla í þessum málum. Mér hefur alltaf fundist risaeðlur vera virðingaverð dýr. En mér finnst þetta synd fyrir komandi kynslóðir að fá ekki þessa upplifun en kannski fá þær einhverja aðra upplifun sem ég hef ekki kynnst,“ segir bíósjúklingurinn að lokum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert