Þjóðhátíðardeginum var fagnað um allt land í dag en 79 ár eru frá stofnun lýðveldis Íslands.
Í Reykjavík hófst hátíðardagskrá á Austurvelli klukkan 11.10. Þar lagði Guðni Th. Jóhannesson. forseti Íslands, blómsveig að minnisvarða Jóns Sigurðssonar.
Í ár var leikkonan Arndís Hrönn Egilsdóttir fjallkona Íslands í Reykjavík.
Arndís lék síðast í kvikmyndinni Villibráð sem er tekjuhæsta íslenska kvikmyndin síðan mælingar hófust árið 1992.
Hún lék í öllum þáttaröðum af Pressu en fyrsta þáttaröðin var sýnd árið 2007.
Þá hefur hún leikið í fjölda kvikmynda eins og Fölskum fugli, Héraði og Saumaklúbbnum.
Að lokinni athöfn fór skrúðganga frá Austurvelli í kirkjugarðinn við Suðurgötu.
Þar lagði Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, forseti borgarstjórnar, blómsveig frá Reykvíkingum á leiði Jóns Sigurðssonar forseta og Ingibjargar Einarsdóttur.