Sérsveitin kölluð út: Maður hótaði fólki með exi

Sérsveitin var kölluð út í kvöld eftir að lögreglunni barst …
Sérsveitin var kölluð út í kvöld eftir að lögreglunni barst tilkynning um mann sem gekk um með exi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sérsveitin var kölluð út fyrr í kvöld á Akureyri vegna manns sem gekk um hátíðarsvæði Bíladaga, sem standa nú yfir þar, og hótaði að taka fólk af lífi með exi.

Þetta staðfestir Aðalsteinn Júlíusson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, í samtali við mbl.is.

Töluverður viðbúnaður á Akureyri

Að sögn Aðalsteins barst lögreglunni á Norðurlandi eystra tilkynning upp úr klukkan 20.00 í kvöld um mann sem gekk um svæði tileinkað Bíladögum með exi í fórum sér. Aðalsteinn segir að maðurinn hafi verið mjög hávær og hafi hótað því að drepa fólk með exinni.

Hann segir að lögreglan hafi kallað út sérsveitina til að aðstoða sig við að yfirbuga manninn.

„Við náðum að handtaka manninn og hann var þá búinn að losa sig við vopnið. Hann gistir hér í fangageymslu í nótt. Hann veitti svolitla mótspyrnu en hann þurfti að lúta í lægra haldi,“ segir hann sem tekur fram að maðurinn hafi ekki náð að særa neinn með exinni.

Aðalsteinn segir að mikill viðbúnaður sé hjá lögreglunni á Akureyri um þessar mundir og að sérsveitin sé á staðnum ef þurfi að grípa inn í.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert