„Það besta við Ísland er mamma“

Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Vignir Rafn Valþórsson leikarar og börn …
Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Vignir Rafn Valþórsson leikarar og börn þeirra þau Kría og Bríet. mbl.is/Óttar

„Það besta við Ísland er mamma,“ þetta sagði hin þriggja ára gamla Bríet spurð hvað væri það besta við Ísland á þjóðhátíðardag Íslendinga í dag.

Sautjándi júní fór fram með pompi og prakt í Reykjavík í dag með tilheyrandi hoppuköstulum og andlitsmálningu fyrir unga sem aldna. Blaðamaður mbl.is fór á vettvang og tók fólk á tal um hefðir og þjóðhátíðardaginn sjálfan á þessum skemmtilega degi. 

Besta við Ísland að fara til útlanda

Þórunn Arna Kristjánsdóttir og Vignir Rafn Valþórsson leikarar og börn þeirra þau Kría og Bríet létu sig ekki vanta á þjóðhátíðardaginn og sögðu í samtali við mbl.is að það skemmtilegasta við sautjánda júní væri að vera saman í miðbæ Reykjavíkur.

Kría sagði að eitt af því skemmtilegasta við daginn væri að fá sleikjó en Þórunn sagði að eitt af því skemmtilegasta væri að hafa tækifæri til að klæða sig í þjóðbúninginn og syngja íslensk lög.

„Þetta er skemmtileg blanda af því að kaupa gasblöðrur og snuddusleikjóa og vera síðan í íslensku klassíkinni. Ég var mjög ung þegar ég ákvað að fermast í þjóðbúning. Ég fékk þennan þegar ég fermdist og það er fallegt við þennan þjóðbúning að allt silfrið í honum kemur úr mismunandi þjóðbúningum frá formæðrum mínum,“ segir Þórunn spurð um sögu þjóðbúnings síns.

Þórunn og Kría sögðu að það besta við Ísland væri stemmingin á meðan Rafn sagði að það besta við Ísland væri að það sé hægt að fara til útlanda og íslenska vatnið. 

Maður sem barðist fyrir Ísland á afmæli

Þeir Freyr, tólf ára, og Kristján, átta ára, voru sammála um að það skemmtilegasta við sautjánda júní væri að ganga í bæinn. 

Spurður hvers vegna þjóðhátíðardagurinn er haldinn sautjánda júní svarar Kristján: „Út af því að þá átti maður sem barðist fyrir Ísland afmæli.“ Spurðir hvort að Jón Sigurðsson yrði ánægður með hvernig landið er í dag svöruðu þeir samróma játandi. Þeir sögðu að það besta við Ísland væri frændsystkini þeirra beggja.

reyr, tólf ára, og Kristján, átta ára.
reyr, tólf ára, og Kristján, átta ára. mbl.is/Óttar

Besta við Ísland að vera inni

Feðgarnir Óskar Emil og Gunnar Steinn gæddu sér á candyfloss þegar blaðamaður mbl.is náði tali af þeim. Óskar Emil sonur Gunnars sagði að það besta við Ísland væri að vera inni en það versta væru skýin. 

Spurður hvers vegna við héldum upp á sautjánda júní svaraði Óskar að það væri út af því að það væri komið sumar. Hann sagði jafnframt að sín helsta hefð á sautjánda júní væri að vera sem mest inni.

Gunnar Steinn og sonur hans Óskar Emil.
Gunnar Steinn og sonur hans Óskar Emil. mbl.is/Óttar

Fá pulsur hjá ömmu

Þær Gréta, Kristjana og Brynja sögðu að það skemmtilegasta að gera á sautjánda júní væri að vera saman í miðbæ Reykjavíkur.

„Við förum síðan til ömmu og förum að borða með allri fjölskyldunni. Fáum okkur pulsur og alls konar kökur og svona,“ sagði Brynja spurð hvort þær væru með einhverjar hefðir. 

Spurðar hvers vegna þjóðhátíðardagurinn væri í dag sögðust þær ekki vita svarið við því en sögðu það besta við Ísland vera ferskt loft, náttúran og öryggi. 

Gréta, Kristjana og Brynja.
Gréta, Kristjana og Brynja. mbl.is/Óttar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert