Tveir í haldi vegna gruns um manndráp í Hafnarfirði

Ljósmynd/Colourbox

Tveir menn eru í haldi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna rannsóknar hennar á andláti karlmanns á fimmtugsaldri í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði í nótt. 

Að sögn lögreglu barst tilkynning um hinn látna á sjötta tímanum í morgun. Hinn látni var þá meðvitundarlaus utandyra þegar viðbragðsaðilar komu á vettvang. Reynt var að endurlífga manninn en það bar ekki árangur.

Í kjölfarið voru tveir karlar handteknir í tengslum við málið, annar í húsi við vettvanginn og hinn þar nærri. Mennirnir sem eru í haldi eru báðir í kringum fertugsaldur, að sögn lögreglu.

Í tilkynningu segir að rannsókn málsins sé enn á frumstigi og ekki sé hægt veitta frekar upplýsingar að svo stöddu. Lögreglan mun senda frá sér frekari upplýsingar um málið eftir því sem rannsókn þess vindur fram.

Rúv greinir frá því að lögregla sé enn með vettvanginn innsiglaðan.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert