Vill skýra hvað má og hvað má ekki

Sigrún Ósk Sigurðardóttir telur mikilvægt að skýra leikreglur á áfengismarkaði.
Sigrún Ósk Sigurðardóttir telur mikilvægt að skýra leikreglur á áfengismarkaði.

Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR, segir að staða ríkisstofnunarinnar á áfengismarkaði sé óljós í ljósi þess að hver netverslun á fætur annarri hefur opnað að undanförnu. Að öðru leyti hafi stofnunin enga skoðun á veru netverslana með áfengi á markaði. 

Óljóst lagaumhverfi

„Við höfum bara bent á að mörkin séu óljós og höfum óskað eftir því að mörkin séu skýrð nánar varðandi smásölu á áfengi, hvort þetta sé löglegt eða ólöglegt. Framkvæmd laganna er þannig að netverslanir starfa í óljósu lagaumhverfi,“ segir Sigrún Ósk. 

ÁTVR er sjálft með netverslun en samkvæmt áfengislögum en fyrirtækið er það eina sem er með einkaleyfi til áfengissölu í smásölu. 

Þarf að vera á borðinu hvað má og hvað ekki

Nú hafa smásölurisar á borð við Hagkaup, Nettó og Krónuna tilkynnt um að stefnt sé að netsölu áfengis eða að málið sé til alvarlegrar íhugunar hjá fyrirtækjunum. Sigrún segir ekki hlutverk stofnunarinnar að hafa skoðun á því. 

Kallað er eftir skýrari svörum á því hvað má og …
Kallað er eftir skýrari svörum á því hvað má og hvað má ekki. mbl.is/Hákon

„Það þarf að vera upp á borðinu hvað má og hvað má ekki. Löggjafinn þarf að skýra það. Við höfum í sjálfu sér enga skoðun á því. Ef að löggjafinn ákveður að þetta sé lögmætt þá þarf ÁTVR að fá það skýrt hvert hlutverk þess sé í þessu mengi,“ segir Sigrún Ósk. 

Hafði ekki lögsögu til að kæra 

Hún lítur svo á að það sé ekki hlutverk á ÁTVR að hafa skoðun í málin sökum þess að stofnunin er framkvæmdaraðili þeirra laga sem um ÁTVR gilda.

Stofnunin kærði netverslanirnar Sante og Bjórland fyrir brot á áfengislöggjöf fyrir tveimur árum en að sögn Sigrúnar var málið var fellt niður á þeirri forsendu að ÁTVR hefði ekki lögsögu til að kæra í málinu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert