Alls útskrifuðust 777 nemendur frá Háskólanum í Reykjavík (HR) við hátíðlega athöfn í gær, 17. júní. Aldrei hafa fleiri nemendur verið brautskráðir frá skólanum, en í fyrra voru þeir alls 754 og 688 árið á undan. Árið 2023 markar 25 ára afmæli HR.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá háskólanum en þar segir að 497 hafi útskrifast úr grunnnámi, 220 úr meistaranámi og 8 úr doktorsnámi. Frá iðn- og tæknifræðideild brautskráðust 52 nemendur. Flest luku námi frá verkfræðifræðideild háskólans að þessu sinni, eða 193 nemendur, þar af 79 með meistaragráðu og 5 með doktorsgráðu.
Næststærsti hópurinn brautskráðist frá tölvunarfræðideild, eða 145 nemendur þar af 10 með meistaragráðu og 2 með doktorsgráðu. Sálfræðideild útskrifaði 105 nemendur, þar af 34 með meistaragráðu. Lagadeild útskrifaði 77 nemendur, þar af 33 með meistaragráðu. Viðskiptadeild útskrifaði 140 nemendur, þar af 56 með meistaragráðu. Íþróttafræðideild útskrifaði 62, þar af 8 úr meistaranámi.
Í ávarpi sínu sagði Ragnhildur Helgadóttir rektor að innan HR væri takmarkið að mennta góðar manneskjur sem hafi forsendur til að skilja, greina og aðlaga nýja þekkingu og nýjar hugmyndir að veruleika sínum. Hún sagði öflugan hóp fólks með þá getu vera lykilatriði í að það sé gott að búa á Íslandi.
Jón Goði Ingvarsson, BSc í tölvunarfræði, hélt ávarp fyrir hönd nemenda á tæknisviði og Eyþór Örn Baldursson, BSc í íþróttafræði, fyrir hönd samfélagssviðs. Í ávarpi sínu ræddi Jón Goði um þá öru þróun tækniframfara sem hann og samnemendur hans fengju notið. Sagði hann þau geta skapað saman tæknivædda en um leið samúðarfulla og sjálfbæra framtíð. Eyþór Örn sagði í ávarpi sínu að mörg í hópnum hefðu hafið nám með ákveðna framtíð í huga en svo uppgötvað ný áhugasvið og störf sem henti þeim.