Már Gunnarsson, sundkappi og tónlistarmaður, segir í pistli á Facebook-síðu sinni að stjórnvöld hafi reist óyfirstíganlegar hindranir sem geri honum ókleift að hafa hjá sér leiðsöguhundinn Max.
Már er erlendis í háskólanámi næstu árin og segir það liggja í augum uppi að himinhár kostnaður komi í veg fyrir að hann geti komið heim til Íslands um sumar og jól með hundinn sinn.
„Max er skilgreindur sem hjálpartæki í eigu hins opinbera, samt bar ég 600.000 kr kostnað af því að taka hann með mér heim nú í sumarfríinu mínu.“
Már kallar í pistlinum eftir svörum frá matvælaráðherra, en hann segist hafa upplifað hunsun frá stjórnvöldum sama hvert hann leitaði.
„Ég hef leitað til Félagsmálaráðuneytisins sem hefur hvatt mig til að sækja um styrki til góðgerðarsamtaka til að komast heim með Max. Þeir segjast ekkert geta gert fyrir mig. Matvælaráðuneytið hunsar mig og Mast og Sjónstöðin benda á einhverja aðra.“
„Ég upplifi það nú sem aldrei fyrr, hve stjórnvöld bera lítla virðingu fyrir fötluðum. Við erum óumdeilt sett í neðsta þrepið. Blindir eru líka fólk, í okkur býr mannauður eins og öllum öðrum.“
Már sendi á dögunum póst til Matvælastofnunar þar sem hann vísaði til nýs kafla í lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda, sjónskerta og einstaklinga með samþætta sjón- og heyrnarskerðingu, sem fjallar um þjónustuhunda. Þar kemur fram að notendur leiðsöguhunda í gegnum Blindrafélagið skuli ekki bera kostnað af flutning hunda til og frá landi hverju sinni.
„Ég sendi þennan póst fyrir einhverjum vikum og fékk til baka svar um að þetta sé í skoðun, en á meðan hef ég þurft að borga allt sjálfur útaf skriffinsku hjá MAST,“ segir Már í samtali við mbl.is.
„Max er augu mín og jafnframt besti vinur minn, ég lít ekki á hann sem bara einhvern hund. Það er bara staðreynd að ef þetta er ekki eitthvað sem er að fara lagast, þá verð ég að láta Max frá mér, en ég get ekki hugsað mér að vera í þessum stóra heimi án þess að vera með hann hjá mér.“