Ökumaður var stöðvaður af lögreglu rétt fyrir hádegi í dag í Hlíðarhverfinu vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna. Maðurinn reyndist vera með fíkniefni og vopn í bílnum þegar lögregla stöðvaði hann.
Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu en frá klukkan 05.00 til klukkan 17.00 voru 40 mál skráð hjá lögreglu í dag.
Einnig barst lögreglunni tilkynning um líkamsárás í Kópavogi upp úr klukkan sex í morgun. Lögregla fór á vettvang og handtók þar einn mann sem gisti í fangageymslu fram eftir degi.
Þá var ökumaður í Reykjavík stöðvaður fyrir að aka á nagladekkjum en annar ökumaður var stöðvaður í Árbæ fyrir að aka yfir leyfilegum hámarkshraða.