Gat varla gengið en hjólaði til Ísafjarðar

Aðalsteinn Elíasson þegar hann kláraði að hjóla frá Reykjavík til …
Aðalsteinn Elíasson þegar hann kláraði að hjóla frá Reykjavík til Ísafjarðar á innan við sólarhring. Ljósmynd/Ingibjörg Sif Sigríðardóttir

Rétt fyrir síðustu jól gat Aðalsteinn Elíasson ekki gengið tvö skref án þess að hvíla sig og var hann lagður inn á bráðamóttöku með lungnabólgu og sýkingu í lungum. Í vikunni sem var að líða hjólaði hann frá Reykjavík til Ísafjarðar á innan við sólahring. 

„Ég fór á stað klukkan tíu úr Reykjavík á miðvikudagsmorgun og var kominn klukkan hálf níu á fimmtudagsmorgun,“ segir Aðalsteinn í samtali við mbl.is.

Áhugi Aðalsteins á hjólreiðum kviknaði árið 2015 en hjólaði hann þá frá Reykjavík og í Búðardal.

Í þeirri ferð fékk hann hugmyndina á því að hjóla frá Reykjavík til Ísafjarðar en hann er fæddur og uppalinn á Ísafirði en býr í Reykjavík.

„Ég er búinn að ætla að gera þetta dálítið lengi. Ég ákvað að reyna að gera þetta í sumar ef það kæmi einhver veðurgluggi. Ég hjólaði í frábæru veðri alla leiðina,“ segir Aðalsteinn.

Aðalsteinn segir að hann hefði aldrei farið af stað ef veður hefði verið slæmt. Bæði þurfti að huga að hita- og vindspám.

Aðalsteinn í Búðardal á leið sinni til Ísafjarðar.
Aðalsteinn í Búðardal á leið sinni til Ísafjarðar. Ljósmynd/Aðalsteinn Elíasson

Maginn í steik og 200 km eftir

Þrátt fyrir gott veður gekk ferðin ekki áfallalaust fyrir sig.

„Ég fékk krampa í magann við Hólmavík sem hefur ekki gerst áður hjá mér. Það entist alveg vel yfir Steingrímsfjarðarheiði. Ég var alvarlega að spá í að hætta á miðri Steingrímsfjarðarheiði. Maginn var alveg gjörsamlega í steik. Þá átti ég 200 kílómetra eftir en ég einhvern veginn þrjóskaðist í gegnum það,“ segir Aðalsteinn.

Hann vissi af heitum potti í botni Ísafjarðar sem hann gæti hvílt sig í og lét hann sig hafa það að hjóla að honum og skellti sér í pottinn í 20 mínútur.

„Ég var eins og nýr maður þegar ég kom úr honum. Það var allt uppá við eftir það. Eftir það var afturendinn á manni bara vandamálið. Hann var farinn að mótmæla dálítið mikið að sitja svona lengi. Að öðru leyti var ég nokkuð góður,“ segir Aðalsteinn.

Ætlaði ekki að komast á hjólið vegna kulda

Ingibjörg Sif Sigríðardóttir, kona Aðalsteins, fylgdi honum eftir meirihluta ferðarinnar á bíl.

Uppi á Steingrímsfjarðarheiði hvíldi hann sig í stutta stund inni í bílnum hjá Ingibjörgu.

„Ég þurfti að taka á öllu sem ég átti til þess að fara út aftur til að byrja að hjóla. Ég ætlaði ekki að komast á hjólið því mér var svo kalt. Ég var í basli við að komast á hjólið og af stað aftur því ég var farinn að skjálfa svo mikið. Um leið og ég byrjaði aðeins að hjóla fékk ég örlítinn yl í kroppinn, sem betur fer.“ segir Aðalsteinn.

Kuldinn var ekki vandamál þegar Aðalsteinn fór til Spánar í vor og hjólaði þar 312 kílómetra í Mallorka 312 hjólreiðakeppninni.

„Ég var að hjóla í 34-36 gráðum þar. Það var eiginlega alveg vonlaust dæmi. Þetta voru 312 kílómetrar og ég kláraði það en ég klikkaði á því að drekka nóg. Ég var búinn með 140 kílómetra þegar ég var eiginlega alveg bugaður. Þá settist ég niður í einhverjar 10-15 mínútur og drakk eins og ég gat. Svo hélt ég áfram. Það svo sem hafðist en það var mikið ströggl,“ segir Aðalsteinn.

Aðalsteinn í Hólmavík.
Aðalsteinn í Hólmavík. Ljósmynd/Aðalsteinn Elíasson

Að stóru leyti hausinn

Mælir þú með að fólk hjóli þessa leið frá Reykjavík til Ísafjarðar?

„Kannski ekki í svona einum rikk en þú þarft að minnsta kosti að undirbúa þig mjög vel. Það er fullt af hjólurum sem gætu gert þetta auðveldlega.

Að stóru leyti er þetta bara hausinn. Ég ætlaði mér að klára þetta. Ég var búinn að setja þetta út í kosmósið að ég væri að fara af stað og ég eiginlega gat ekki hætt, ég varð að klára þetta. Á meðan maður stóð í lappirnar þá eiginlega varð maður að klára þetta,“ segir Aðalsteinn.

Gat varla gengið fyrir jól

Inntur um hversu mikið líkamlegt afrek það sé að hjóla svona langt á stuttum tíma gerir Aðalsteinn þó ekki lítið úr því. 

Hann er búinn að hjóla sex daga vikunnar í vetur þegar heilsan hefur leyft það.

„Ég fór á Læknavaktina og var fluttur með sjúkrabíl á bráðamóttöku viku fyrir jól. Ég gat ekki labbað tvö skref, þá varð ég að hvíla mig,“ segir Aðalsteinn.

Hann segir að heillangan tíma hafi tekið fyrir Ingibjörgu að koma honum út í bíl til að keyra hann á Læknavaktina vegna veikinda hans.

„Ég fékk lungnabólgu, sýkingu í lungun og RS-vírus. Ég var verulega veikur, það var bara svoleiðis,“ segir Aðalsteinn.

Það tók hann það sem eftir var af vetri til þess að ná svipuðum styrk og fyrir veikindi.

Aðalsteinn áður en hann lagði í ferðina miklu.
Aðalsteinn áður en hann lagði í ferðina miklu. Ljósmynd/Ingibjörg Sif Sigríðardóttir

Dálítið lúinn og þreyttur í lokin

Leiðin frá Reykjavík til Ísafjarðar er um 490 kílómetrar sem Aðalsteinn fór á heildartímanum 22 klukkustundum og 32 mínútum. Sat hann á hjólinu í 17 klukkustundir og 34 mínútur af því.

Meðalhraðinn hans var um 27,8 kílómetrar á klukkustund.

„Frá Reykjavík í Borgarnes var hann [meðalhraðinn] 30,9 km/klst eða eitthvað svoleiðis og frá Borgarnesi í Búðardal var hann um það bil 30,1 km/klst. Frá Hólmavík til Ísafjarðar datt hann niður. Maður var orðinn dálítið lúinn og þreyttur,“ segir Aðalsteinn.

Hvað ert þú með í FTP (Functional Threshold Power)?

„260, það er nú allt of sumt og ég er 70 kíló,“ segir Aðalsteinn.

Blaðamaður varð að ganga úr skugga um að engin brögð væru í tafli og spurði Aðalstein hvort hann hafi nokkuð verið á rafmagnshjóli.

„Nei nei þetta er bara hefðbundið reiðhjól,“ sagði Aðalsteinn að lokum þegar hann hætti loks að hlægja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert