Kvörtunum til landlæknis fjölgar

Alma D. Möller landlæknir.
Alma D. Möller landlæknir.

Kvörtunum sem berast embætti landlæknis hefur fjölgað mikið samkvæmt upplýsingum frá Ölmu D. Möller landlækni. Embættið boðaði nýverið áframhaldandi tafir á afgreiðslu erinda í mörgum málaflokkum.

Í tilkynningu frá embætti land­læknis segir að vegna mikilla anna sé fyrirsjáanlegt að áfram verði tafir á afgreiðslu mála.

Tekið er fram að mikið álag sé við útgáfu starfsleyfa og sérfræðileyfa og embættið verði ekki við óskum um flýtimeðferð einstakra mála.

Í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins segir Alma að kvörtunum og athugasemdum við þjónustu hafi fjölgað mjög og valdi þetta langri málsmeðferð. Þá hafi önnur verkefni hjá embætti landlæknis einnig vaxið og flóknum málum fjölgað.

400 kvartanir í meðferð

Sem stendur eru tæplega 400 kvartanir til meðferðar: 200 eru í gagnakalli eða gagnakynningu, tæp 100 mál eru annaðhvort á bið eftir óháðum sérfræðingi eða til meðferðar hjá óháðum sérfræðingi og um 100 mál eru í álitsritun.

Um meðferð kvartana fer samkvæmt 12. gr. laga um landlækni og lýðheilsu. Algengur málsmeðferðartími er 1-2 ár en dæmi eru um lengri tíma, allt upp í 3-4 ár.

Málsmeðferð er samkvæmt stjórnsýslulögum og segir Alma að það taki tíma að fá greinargerðir og andsvör. Oftast þurfi einnig að fá umsögn frá óháðum sérfræðingi.

Þá segir í skriflegu svari Ölmu að stöðugildum til að vinna að kvörtunum hafi fækkað og skýrist það af auknu verkefnaálagi „vegna annars sem og aðhaldskröfu í fjárveitingum sem embættið sætir árlega og sem einnig veldur því að minna fjármagn er til að kaupa vinnu óháðra sérfræðinga.“

Embættinu hafi ekki tekist að sækja aukið fé til samræmis við fjölgun kvartana þrátt fyrir ítrekuð erindi til heilbrigðisráðuneytis.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert