Rúta í eigu Teits Jónassonar festist í Krossá síðdegis í gær. Ekki var gerð atlaga að því að losa rútuna fyrr en klukkan sex um kvöldið vegna mikils straums í ánni. Náðist að draga rútuna upp úr ánni um níuleytið í gærkvöldi.
Vísir sagði fyrst frá.
„Það tók langan tíma og þurfti margþætt átak margra véla til að koma henni út,“ segir Heiðrún Ólafsdóttir, skálavörður í Langadal, í samtali við mbl.is. Hún segir að rútan hafi komist úr áni um níuleytið í gærkvöldi „Það var mjög erfitt að koma rútunni upp úr ánni.“
Heiðrún segir að rútan hafi farið ofan ána klukkan fjögur í gær. Engir farþegar voru í rútunni en tveimur bílstjórum rútufyrirtækisins var bjargað af skálavörðum.
Hún segir að það sé ekki algengt að rútur festist á leiðinni yfir Krossá. Hún segir ástæðurnar fyrir því að rúturnar festust vera nokkrar: Mikið hafi verið í ánni þegar reynt var að keyra rútunni yfir ána, bílstjórinn hafi ekki komið rétt að ánni og rútan hafi aðeins verið með eitt drif.
Björgunarsveitin Dagrenning á Hvolsvelli kom með bíl til aðstoðar.
Myndskeiðið tók Sif Sigurþórsdóttir.