Nemendur í 1.- og 2. bekk í Grunnskóla Vestmannaeyja voru að klára sitt annað ár í rannsóknar- og þróunarverkefninu Kveikjum neistann! 83% nemenda í 2. bekk voru læsir við lok skólaárs. Skólastjóri grunnskólans segir þaulreynda kennara sjá miklar framfarir hjá nemendum milli árganga.
Anna Rós Hallgrímsdóttir skólastjóri GRV segir verkefnið hafa skilað góðum árangri. „Við erum mjög ánægð með hvernig þetta gengur og erum mjög ánægð með hvernig þetta hefur farið af stað.“
98% barnanna í 1. bekk gátu við lok árs lesið orð. 83% nemenda töldust læsir við lok 2. bekkjar, en eitt af markmiðum verkefnisins var að 80% nemenda skyldu teljast læsir við lok 2. bekkjar.
„LÆS“ er stöðumatsprófið sem notað er í skólanum til að meta hvort að nemendur geti lesið og skilið aldurssamsvarandi texta. Anna segir að fyrsta prófið sem var lagt fyrir nemendur hafi verið norskt próf sem var þýtt yfir á Íslensku.
„Í þessum prófum sem við erum að nota þá er verið kanna bókstafi, hljóð og setningar. Fyrsta prófið var staðlað frá Noregi og var heimfært yfir á Íslensku. Svo er rannsóknarsetrið sem gerði seinna prófið,“ segir hún.
Einar Gunnarsson aðstoðarskólastjóri GRV tekur í sama streng og Anna. „Þessar niðurstöður eru mjög ánægjulegar. Frá upphafi verkefnisins ætluðum við að stefna á að 80% nemenda væru læsir eftir 2. bekk og það náðist,“ segir hann og bætir við.
„Þetta er 10 ára verkefni og við erum að vanda okkur við að fylgja fremstu vísindum.“
Anna Rós segir að lokum að marktækur munur sjáist á nemendum. „Við erum að sjá mun á nemendum frá ári til árs og við erum með reynda kennara sem hafa kennt í fjöldamörg ár og þeir eru að sjá mikinn mun hjá krökkunum.“
Vestmannaeyjabær, Mennta- og menningarmálaráðuneyti, Háskóli Íslands og Samtök atvinnulífsins styðja við verkefnið. HÍ og SA stofnuðu Rannsóknarsetur um menntun og hugarfar, sem er leitt af prófessor Hermundi Sigmundssyni. Rannsóknarsetrið ber ábyrgð á verkefninu.