Sá látni var pólskur með ættingja hér á landi

Maðurinn sem fannst látinn í Hafnarfirði var pólskur ríkisborgari.
Maðurinn sem fannst látinn í Hafnarfirði var pólskur ríkisborgari. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Maðurinn sem var úrskurðaður í gæsluvarðhald í gærkvöldi sökum gruns um manndráp á karlmanni á fimmtugsaldri í Hafnarfirði er pólskur ríkisborgari. Maðurinn sem lést var einnig pólskur ríkisborgari og átti fjölskyldu hér á landi.

Grímur Grímsson, yf­ir­maður miðlægr­ar rann­sókn­ar­deild­ar lög­regl­unn­ar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.

Eins og áður hefur verið greint frá voru tveir menn handteknir af lögreglu í gær vegna rannsóknar á andláti manns sem fannst meðvitundarlaus utandyra í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði. Mennirnir tveir sem voru handteknir eru báðir pólskir ríkisborgarar á fertugsaldri. Annar þeirra var úrskurðaður í gæsluvarðhald fram til fimmtudags en hinum var sleppt úr haldi. 

Tengsl á milli mannanna tveggja

Tengsl eru á milli mannanna en spurður hver þau eru vildi Grímur ekki svara því að svo stöddu. Fréttastofa Ríkisútvarpsins greindi frá því í kvöld að maðurinn sem er í gæsluvarðhaldi sé meðleigjandi mannsins sem fannst látinn og að talið sé að hann hafi veist að manninum í svenherbergi hans.

Aðspurður segir Grímur að andlát mannsins hafi líklegast borið að með notkun eggvopns en sagði að krufning þyrfti að leiða í ljós endanlega hver dánarorsökin sé. 

Grímur segir í samtali við mbl.is að rannsókninni miði vel áfram og að lögreglan sé með nokkuð skýra mynd af atburðarrásinni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert