Borgarfjörður eystri skartaði sínu fegursta daginn sem blaðamaður lagði lykkju á leið sína hringinn um landið og heimsótti Bakkagerði. Íþróttafræðingurinn og hóteleigandinn Auður Vala Gunnarsdóttir tók vel á móti blaðamanni, enda alvön að taka á móti gestum, en hún á og rekur hótelið Blábjörg. Húsnæðið var eitt sinn frystihús bæjarins og sláturhús en starfsemi hófst í húsinu 1949. Í dag er þar gistiheimili, veitingastaður, spa og ölstofa.
„Við keyptum þetta árið 2006 í bríaríi og þá var húsið í mjög slæmu ástandi,“ segir Auður en hún keypti húsnæðið ásamt eiginmanni sínum, Helga Sigurðssyni tannlækni.
„Hugmyndin mótaðist svo og við ákváðum að opna gistihús árið 2011 og síðan opnuðum við spa ári síðar sem mörgum fannst fráleit hugmynd en mér fannst hún góð,“ segir Auður og segir þau svo hafa sett upp útipotta árið 2013 auk þess að opna tvær stúdíóíbúðir.
„Eitt leiddi af öðru og við höfum alltaf verið að bæta við og byggja, þannig að við höfum verið að framkvæma síðan við keyptum. Það bætast alltaf við einingar,“ segir Auður, en gistihúsið og veitingastaðurinn er opinn allt árið og í dag er pláss fyrir 56 gesti. Hjónin keyptu síðan gamla Kaupfélagið árið 2016 og breyttu því í brugghús og krá.
„Við eimum landa og gin; KHB-landa og KHB-gin, en það er vísun í gamla nafnið, Kaupfélag Héraðsbúa. Við bruggum svo bjór eftir tékkneskum hefðum og í fyrra opnuðum við ölstofu þar sem er oft góð sveitastemning,“ segir hún.
„Við önnuðum ekki eftirspurn og ákváðum því að bæta við einingu með herbergjum og stærra spai sem verður opnað núna um miðjan júní. Þar verður boðið upp á bjórböð og þaraböð, sem er alveg nýtt,“ segir Auður og segist ætla að bjóða upp á alls kyns vörur úr þara.
Áttu góða sögu af gestum?
„Já, ég hef tekið á móti grátandi fólki hér eftir keyrsluna hingað,“ segir Auður og segir útlendinga ekki vana að keyra utan í snarbröttum hlíðum fjallanna.
„Ég hef þurft að taka gesti í fangið því sumir ferðamenn verða rosalega hræddir. Ég gef þeim þá glögg í glas og sendi þau í spaið,“ segir hún sposk.
„Svo er lundinn ofboðslega merkilegur fyrir marga. Ein bandarísk kona fór að skoða lundann og þegar hún kom aftur datt hún í faðminn á mér og fór að hágráta. Hún var svo hamingjusöm því það hafði verið draumur lífs hennar að sjá lunda.“
Ítarlegt viðtal er við Auði í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina.