Síðasta nótt var erilsöm hjá lögreglunni á Akureyri. Ofan á þjóðhátíðarhöld voru Bíladagar einnig haldnir í bænum um helgina. Handtaka þurfti marga og var sérsveitin kölluð út vegna manns sem gekk um með öxi á tjaldsvæði.
Allar fangageymslur lögreglunnar á Akureyri voru fullar í morgun, þar sem sex manns voru handteknir í nótt. Ekkert alvarlegt mál kom þó upp, að sögn lögreglu.
„Þetta er ofboðslega stór helgi, annars vega vegna Bíladaga en líka því að það var útskrift í menntaskólanum og eldri nemendur voru að júbílera,“ segir Árni Páll Jóhannsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri, við mbl.is
„Það er yfirleitt mikill mannfjöldi í bænum í kringum þessa hátíðardaga,“ segir hann. „Það var bara erill. Fólk var í misgóðu ástandi þegar leið á nóttina.“
Sérsveitin var kölluð út í gærkvöld á Akureyri vegna manns sem gekk um hátíðarsvæði Bíladaga og hótaði að taka fólk af lífi með exi. Árni segir að maðurinn hafi greinilega verið mjög ölvaður og gisti hann í fangageymslu í nótt.
„Hann beitti þessu ekki gegn neinum. Við náðum alla vega að handsama hann áður en til þess kom,“ segir Árni. Maðurinn var látinn sofa af sér ölvímuna en verður yfirheyrður þegar hann vaknar.