Landhelgisgæslan hefur unnið ötullega að undirbúningi þess ef bregðast þarf við atviki þar sem skemmtiferðaskip lendir í vanda.
Þetta segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, aðspurður í samtali við Morgunblaðið.
Tilefni fyrirspurnarinnar er alvarlegt atvik sem nýverið átti sér stað á Viðeyjarsundi, þegar skemmtiferðaskipið Norwegian Prima rak um of vegna hvassviðris er það var að snúa sér frá bryggju.
Litlu munaði að illa færi, en hátt í 5.000 manns voru um borð í skipinu þegar atvikið átti sér stað. Atvikið er nú til rannsóknar hjá Rannsóknarnefnd samgönguslysa.
Ásgeir segir Landhelgisgæsluna vel undirbúna undir slík atvik. Spurður um aðkomu Gæslunnar að óhöppum hjá skipunum, segir Ásgeir að áhersla sé lögð á meiri viðbúnað, aukið erlent samstarf og þátttöku í reglulegum og umfangsmiklum björgunaraðgerðum.
Þetta hafi stuðlað að því að nú sé Landhelgisgæslan eins vel undirbúin fyrir komu skemmtiferðaskipa og mögulegt er.
Von er á talsverðum fjölda skemmtiferðaskipa til Íslands í sumar. Þrátt fyrir gífurlegan viðbúnað segir Ásgeir að því sé ekki að leyna að Landhelgisgæslan hafi áhyggjur af atburðum sem kunni að koma upp, tengda skipunum.
„Við höfum miðað okkar viðbúnað og æfingar eins og kostur er við það að vera sem best í stakk búin til að takast á við slíka atburði,“ segir Ásgeir.
Hann segir bættan viðbragðstíma Landhelgisgæslunnar undanfarin ár hafa meðal annars miðað að því að vera undirbúin því ef ske kynni að skemmtiferðaskip kæmist í vanda við Íslandsstrendur.
„Með tilkomu Freyju í flota Landhelgisgæslunnar er Gæslan nú með tvö öflug varðskip sem hafa mikla dráttargetu, sem getur skipt sköpum þegar stór skip lenda í háska nálægt landi. Með því að staðsetja skipin sitt á hvorum hluta landsins, í Reykjavík og á Siglufirði, er viðbragðstíminn skemmri en áður,“ segir Ásgeir.
Meira um málið í laugardagsblaði Morgunblaðsins.