Yngsti gesturinn hálfs árs og elsti á tíræðisaldri

Forsetinn tók á móti fólki í þrjá tíma.
Forsetinn tók á móti fólki í þrjá tíma. mbl.is/Helgi Bjarnason

„Þetta var bara skemmtilegt eins og fyrri daginn. Fólk lét smá rigingarúða ekkert á sig fá og hélt til Bessastaða og hafði vonandi gaman af því,“ segir Guðni Th. Jóhannesson um opið boð til almennings í þjóðhöfðingjasetrið í dag.  

Almenningi var boðið að heimsækja Bessastaði og skoða sig og svöruðu starfsmenn spurningum gesta.

„Eins og venjulega gekk fólk um húsakynnin og kynnti sér söguna og naut þá leiðbeininga þeirra sem voru innan dyra og gátu svarað spurningum um söguna og innanstokksmuni. Svo var líka hægt að koma við í kirkjunni og úti á hlaði var Packard bifreið embættisins frá 1942, fólk hafi auðvitað gaman af því. Ég náði að heilsa upp á landa mína og aðra gesti, það var talsvert af ferðamönnum sem litu við en langmest þó Íslendingar,“ segir Guðni í samtali við mbl.is.

Á annan þúsund manns 

Hann segir stöðugan straum fólks hafa verið að svæðinu en á annan þúsund manns hafi lagt leið sína á Bessastaði.

„Já, það var stöðugur straumur, við opnuðum dyrnar laust fyrir klukkan eitt og kvöddum síðasta gestinn upp úr klukkan fjögur og þetta mun hafa verið á annan þúsund manns sem komu við, ungir sem alnir og nokkuð um fólk til dæmis frá Úkraínu sem kom hér við annað hvort í hópum eða bara einstaklingar og fjölskyldur. Talsvert líka af fólki utan af landi sem var á ferð um höfuðborgarsvæðið þannig það var gaman að geta kastað kveðju á allt þetta ágæta fólk og ég vona bara að allir hafi haft gaman af þessu. Gaman að geta haft þjóðhöfðingjasetrið opið í kringum þjóðhátíðardaginn,” segir Guðni.

Forréttindi að geta gert þetta 

Þegar því er velt upp að það sé eflaust sérstakt og mikil forréttindi að búa í landi þar sem hægt sé að opna bústaðinn svona upp á gátt og forseti mætir fjölda fólks með handabandi játar Guðni því.

„Jú, ætli það megi ekki segja það. Auðvitað er það þannig víða úti í heimi að konungshallir eru opnar almenningi á ákveðnum tímum en við snúum bara í þessu, eins og svo mörgu öðru, smæð okkar í styrk og nýtum það að búa í tiltölulega fámennu landi þar sem við getum haft opið hús af þessu tagi og bara gaman af því,“ segir hann.

Hafa ekki tök á því að bjóða inn í pönnukökur og kleinur

Blaðamaður nefnir að Íslendingar eigi það gjarnan til að grobba sig af því að geta bankað upp á hjá forsetanum og fengið pönnukökur og kaffi. Guðni segir raunveruleikann ekki svo en forsetinn sé ekki alltaf við á Bessastöðum vegna anna hversdagsins.

„Ferðamenn eru velkomnir hingað en við getum ekki opnað dyr fyrir þeim alla daga þeir koma þá hér upp á hlað og njóta þess sem þar er að sjá en við höfum því miður ekki tök á því að bjóða öllum inn í pönnukökur og kleinur, auðvitað væri það gaman líka,“ segir Guðni.

Hann segir unga sem aldna hafa komið í heimsókn.

„[...] Auðvitað er bara fyrst og fremst gaman að fá gott fólk í heimsókn á degi eins þessum. Ég held að yngsti gesturinn hafi verið innan við hálfs árs gamall og sá elsti á tíræðisaldri þannig að hingað komu einmitt ungir sem aldnir,“ segir Guðni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert