„Búið er að finna lausn á málinu innan ráðuneytisins og mun Már því ekki þurfa að bera kostnað vegna hundsins,“ segir í svari matvælaráðuneytisins vegna máls Más Gunnarssonar, íslensks námsmanns á Englandi, afreksmanns í íþróttum og tónlistarmanns, en málið snýst um blindrahund hans, Max.
Að koma með dýrið heim til Íslands, þjálfaðan aðstoðarhund, kveðst Már þurfa að greiða 600.000 krónur fyrir við hverja heimsókn, en um þetta fjallaði hann á Facebook-síðu sinni í gær. Max sé skilgreindur sem hjálpartæki í eigu hins opinbera en kveðst Már engu að síður hafa þurft að greiða upphæðina fyrir að koma í sumarfrí til Íslands nýlega.
Í lögum um þjónustu- og þekkingarmiðstöð fyrir blinda og sjónskerta segir meðal annars að notendur leiðsöguhunda skuli „ekki bera kostnað sem hlýst af öflun og þjálfun slíkra hunda eða vegna flutnings slíkra hunda til og frá landi hverju sinni.“ Í þetta lagaákvæði vísaði Már í samskiptum sínum við Matvælastofnun sem stendur við ákvörðun sína um innflutning dýrsins en vísar á ráðuneytið.
„Þess vegna er ég ekki einungis dapur heldur er mér verulega brugðið yfir því hve íslenskum stjórnvöldum stendur á sama um okkur. Stjórnvöldum sem með vitund og vilja reisa hindranir sem verða mér óyfirstíganlegar í framtíðinni og gera mér ókleift að hafa Max hjá mér,“ skrifar Már enn fremur.
Kveðst hann upplifa það nú sem aldrei fyrr hve stjórnvöld beri litla virðingu fyrir fötluðum. „Við erum óumdeilt sett í neðsta þrepið,“ skrifar Már sem ræddi mál þeirra félaga, hans og Max, við mbl.is í dag. Kveðst hann í samtalinu hafa fullan skilning á þeim rökum sem búa að baki sóttvarnareglum við innflutning gæludýra.
„Hundurinn er augun mín,“ segir Már og greinir frá því að þegar hann kom í frí heim frá Englandi hafi hundurinn verið tekinn af honum á flugvellinum. „En það má ekki aðskilja okkur eins og þarna var gert,“ segir hann.
Leitaði Már til félagsmálaráðuneytisins og matvælaráðuneytisins vegna málsins. Í því fyrrnefnda voru honum boðnar ráðleggingar sem gengu út á að hann gæti leitað eftir fjárhagsaðstoð hjá góðgerðarsamtökum til að standa undir kostnaðinum. Matvælaráðuneytið hafi hins vegar skellt skollaeyrunum við og engu svarað.
„Ég get hreinlega ekki komið heim til Íslands án hundsins,“ bendir Már á og bætir því við að notendum leiðsöguhunda sé frjálst að fara um hvarvetna þar sem almenningi er frjáls för, þeir sömu notendur eigi því ekki að bera kostnað af að ferðast með samgöngutækjum.
„Mér þykir það augljóst að það að krefjast greiðslu fyrir að koma með hjálpartæki sem er í ríkiseigu aftur heim til Íslands og að fara fram á dýralæknisþjónustu og láta blinda notendur taka á sig kostnaðinn jafngildi því að meina fötluðum aðgang að heimalandi sínu nema gegn greiðslu,“ segir Már.
Hann kveður afstöðu MAST lýsa miklu óréttlæti. „Ég kem til með að læra erlendis næstu fimm árin, er þetta eitthvað sem ég mun þurfa að greiða á hverju ári?“ spyr Már Gunnarsson að lokum og telur um hreina og klára mismunun íslenskra stjórnvalda að ræða.