Deilt er um ágæti þess að taka hjartamagnyl að staðaldri í því skyni að fyrirbyggja ristil- og endaþarmskrabbamein.
Arnar Snær Ágústsson, doktorsnemi við Læknadeild Háskóla Íslands, hefur undanfarið unnið að rannsóknarverkefni þar sem hann kannar hvort ákveðin lyf, sem fólk tekur að staðaldri fyrir greiningu krabbameins, geti aukið lifun einstaklinga með ristil- og endaþarmskrabbamein.
Hann segir rannsóknir benda til þess að hjartamagnyl dragi úr áhættu á myndun og þróun bæði ristil- og endaþarmskrabbameina. Önnur bólgueyðandi lyf, sem virka með öðrum hætti, hafi þó ekki verið rannsökuð í þessu samhengi til lengri tíma.
Væntingar hans eru þó þær að önnur bólgueyðandi lyf dragi einnig úr myndun krabbameina og stuðli að betri lifun.
Arnar sagði menn þó deila um hvort ráðlegt sé að taka bólgueyðandi lyf að staðaldri, með það í huga að fyrirbyggja krabbamein í ristli og endaþarmi. Þó sé mælt með því að fólk með Lynch-heilkennið, sem er líklegra til þess að fá krabbamein, taki lyfið í forvarnarskyni.
Ástæða þess að varasamt gæti verið fyrir aðra að taka lyfið að staðaldri er sú að hjartamagnyl hefur engin fyrirbyggjandi áhrif fyrstu fimm árin sem það er tekið.
Rannsóknin hefur nú staðið í þrjú ár og gerir Arnar ráð fyrir að niðurstöður um það hvort önnur lyf hafi áhrif á myndun krabbameinsins liggi fyrir eftir hálft ár til viðbótar.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.