„Þú ert búinn að segja að þú sért í miðri á með mörg verkefni og nú verður skipt í miðri á og ég held áfram. Ég ætla að vona að ég nái að sigla þínum góðu málum farsællega í höfn eins og við vitum sem ekki var hægt að klára núna á síðasta þingi," sagði Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra þegar hún tók formlega við lyklavöldunum úr höndum forvera síns Jóns Gunnarssonar í dómsmálaráðuneytinu fyrr í dag.
Þar slógu þau á létta strengi og sagði Guðrún erfitt að feta í fótspor Jóns sem unnið hefði gott starf fyrir ráðuneytið. Jón sagði það táknrænt að lyklakippan sem hann afhenti Guðrúnu væri með íslenska fánamerkinu þar sem dómsmálaráðuneytið stæði vörð um hornsteina samfélagsins. Þá afhentu þau hvort öðru blómvönd um leið og þau óskuðu hvort öðru velfarnaðar.
Guðrún segist taka við góðu búi úr höndum forvera síns og hlakka til að takast á við þetta nýja hlutverk. Þá séu útlendingamálin henni ofarlega í huga þar sem við séum komin að þolmörkum hvað varðar fjölda útlendinga sem hingað kemur.
„Það er gríðarlega mikilvægt að við tökum á því hversu margir eru að koma hér til landsins. Það verður auk þess að verða meiri hraði í kerfinu. Við getum ekki verið hér með fleiri þúsund manns sem eru að bíða eftir afgreiðslu sinna mála. Þannig að við þurfum líka að auka málsmeðferðarhraða fólks í kerfinu."
Önnur áherslumál Guðrúnar eru til að mynda löggæslan hér á landi en hún segist vera sammála Jóni að auka þurfi heimildir lögreglunnar til að takast á við skipulagða brotastarfsemi. Aðspurð um viðurlög við refsingum og hvort hún sem dómsmálaráðherra geti beitt sér fyrir því að refsingar við alvarlegum glæpum verði endurskoðaðar, jafnvel þyngdar, svarar Guðrún því til að dómsmálaráðherra geti beitt sér með ýmsum hætti.
„Ég tel algjörlega óásættanlegt að við séum með um 300 manns sem bíða afplánunar í íslensku samfélagi. Það er allt of mikið og allt of langur tími sem fólk þarf að bíða eftir fullnustu refsingar þannig að ég hef mikinn áhuga á að skoða hvernig við getum leitað hugsanlega annarra leiða til dæmis með því að auka samfélagsþjónustu eða eitthvað í þeim dúr til þess að stytta þann tíma.“
Spurð um vaxandi glæpatíðni hér á landi og áhyggjur af aukningu alvarlegri glæpa á borð við stunguárásir segir Guðrún að ávallt þurfi að hafa áhyggjur af slíkri þróun.
„Við eigum alltaf að hafa áhyggjur af því þegar framdir eru glæpir og hér hafa verið framdir hryllilegir glæpir á síðustu vikum og mánuðum en svo virðist vera sem það sé fjölgun núna og það er mikið áhyggjuefni og ber að taka á því með festu. Til þess þurfum við að styrkja og efla lögregluna og ég hef hug á að halda áfram á þeirri braut sem Jón hefur gert hvað það varðar.“
Þá segist Guðrún sjá það fyrir sér að Jón verði henni innan handar með þau mál sem hann náði ekki að klára á meðan hann sat í ráðherrastólnum.
„Já, ég sé það vel fyrir mér sem og hans aðstoðarmenn. Það er góður andi í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Formaður flokksins, Bjarni Benediktsson, gaf út að svona yrði þetta fyrirkomulag á þessu kjörtímabili að Jón Gunnarsson myndi taka 18 mánuði kjörtímabilsins og ég myndi síðan taka við. Það er að raungerast og ætti ekki að koma neinum á óvart. Við vinnum saman sem heild í þingflokki Sjálfstæðisflokksins og ég vænti stuðnings Jóns Gunnarssonar, rétt eins og ég hef stutt hann í hans verkum.“
Þá segir Guðrún að eitt af hennar verkefnum verði að styrkja Landhelgisgæsluna þar sem kallað hefur verið eftir bættari öryggisþáttum á landsbyggðinni. Spurð um þörfina á að auka við flota Gæslunnar svarar Guðrún því til að mikilvægt sé að öryggisþáttum sé vel sinnt.
„Ég ætla að minna á það að ég er landsbyggðarþingmaður, ég er þingmaður í Suðurkjördæmi sem er víðfermasta kjördæmi landsins og þar er mikið ákall um að þessum öryggisþætti sé vel sinnt. Bara í mínu kjördæmi eru þetta hátt í 500 kílómetrar endanna á milli og hafa til dæmis Vestmannaeyingar sem og íbúar á Höfn og í Skaftafellssýslu kallað eftir að öryggisviðbragð sé fullnægjandi, það sé öruggt, það sé gott og það sé líka góður viðbragðstími. Við skulum líka hafa það í huga að víða um land erum við að taka á móti gríðarlegum fjölda ferðamanna þar sem hafa orðið alvarleg slys og þegar þau slys hafa orðið, því miður, að þá eru oft jafnvel tugir manna í hættu. Við verðum að styrkja það viðbragð bæði þannig að íbúar landsins sem og gestir okkar búi við öryggi.“