Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, telur ekki þörf á að breyta fyrirkomulagi hátíðarhalda í bæjarfélaginu í kringum 17. júní en þrjár hátíðir eru að jafnaði haldnar um það leyti.
Til viðbótar við hátíðarhöld vegna þjóðhátíðardagsins er löng hefð fyrir því að Bíladagar fari fram helgina næst þjóðhátiðardeginum, auk þess sem Menntaskólinn á Akureyri útskrifar nemendur sína þann 17. júní.
Þá er haldin þriggja daga júbílantahátíð fyrir eldri nemendur MA í aðdraganda útskriftar menntskælinga og því nóg um að vera á Akureyri þessa daga. Ofan á áformuð hátíðarhöld var spáð blíðskaparveðri fyrir norðan um helgina og því margir sem lögðu leið sína í sólina. Helgin var því erilsöm fyrir norðan, ekki síst hjá lögreglunni á Akureyri.
„Það er yfirleitt mikill mannfjöldi í bænum í kringum þessa hátíðardaga,“ sagði Árni Páll Jóhannsson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri. „Það var bara erill. Fólk var í misgóðu ástandi.“
Allar fangageymslur voru fullar í gærmorgun en sex manns voru handteknir aðfaranótt sunnudags. Þá þurfti að kalla út sérsveitina vegna manns sem gekk um hátíðarsvæði Bíladaga og hótaði því að bana fólki með exi.
Ásthildur segir hátíðirnar hingað til hafa farið vel saman. Spurð hvort komið hafi til tals að dreifa þessum hátíðum á fleiri helgar, sagði hún svo ekki vera. „Sjálfsagt hefur sú umræða átt sér stað í einhverjum hópum, en það hefur ekki verið rætt um það formlega,“ sagði Ásthildur.