Félagslegur stöðugleiki er mikilvægur

Finnbjörn A. Hermannsson, sem á dögunum var kjörinn forseti Alþýðusambands …
Finnbjörn A. Hermannsson, sem á dögunum var kjörinn forseti Alþýðusambands Íslands. mbl.is/Sigurður Bogi

„Stóra verkefnið í komandi kjarasamningum er að auka kaupmátt en ekki síður að stuðla að félagslegum stöðugleika á Íslandi. Þar horfi ég meðal annars til húsnæðismála, svo miklu skipta þau fyrir líf almennings og hafa áhrif víða í efnahagslífinu,“ segir Finnbjörn A. Hermannsson, sem á dögunum var kjörinn forseti Alþýðusambands Íslands.

Á vinnumarkaði semja stéttarfélög og samtök þeirra við atvinnulífið um kaup og kjör. Hlutverk ASÍ er að leggja línur á breiðum grundvelli, til dæmis gagnvart ríkinu, en oft þarf aðkomu þess svo kapallinn gangi upp.

Árangur í stuttum skrefum

„Starf að málefnum launafólks er í eðli sínu strögl og baráttunni lýkur aldrei. Á hverjum degi koma upp mál sem þarf að leysa. Til þess þarf ekki alltaf hávaða; mestur og bestur árangur næst með því að viðsemjendur sýni hvorir öðrum virðingu og málamiðlun skilar meiru en yfirgangur. Oft er líka best að ná settu marki með mörgum stuttum skrefum í stað þess að ætla alla leið í einu stökki,“ segir Finnbjörn.

„Í félagslegum stöðugleika felst að allir hafi húsnæði og að til staðar séu réttlát kerfi sem grípa fólkið sem á erfitt með að festa sér íbúð. Kaupmáttur fæst víðar en úr útborguðum launum og því kalla ég eftir því að á Íslandi verði mótuð húsnæðisstefna til lengri tíma. Til staðar var ágætt kerfi verkamannabústaða; eini vísinn að opinberri húsnæðisaðstoð sem til hefur verið á Íslandi. Síðustu 30 árin hefur markaðurinn alfarið verið látinn sjá um húsnæðismálin og því verður að breyta. Til stendur nú að auka verulega framlög til Bjargs, íbúðafélags verkalýðshreyfingarinnar, og slíkt er fagnaðarefni. Hjá Bjargi hafa margir fengið húsnæði sem annars væru í vanda,“ segir Finnbjörn og heldur áfram:

„Stóra málið er að byggja þarf meira af íbúðarhúsnæði, samanber þær miklu fyrirætlanir sem fyrir liggja. Sveitarfélögin hafa hins vegar ekki náð að útvega lóðir í þeim mæli sem þarf. Markaðurinn hefur líka gripið að verðmæti liggja í takmörkuðu framboði lóða, sem ganga kaupum og sölum milli lukkuriddara.“

Nán­ari um­fjöll­un er að finna í Morg­un­blaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert