Fjarstaddur aðili þvingar til kynlífsathafna

Hæstiréttur veitir áfrýjunarleyfi í máli manns sem braut gegn fimm …
Hæstiréttur veitir áfrýjunarleyfi í máli manns sem braut gegn fimm grunnskólastúlkum. Ljósmynd/Kristinn Ingvarsson

Hæstiréttur hefur samþykkt áfrýjunarbeiðni Brynjars Joensens Creed vegna máls hans sem Landsréttur dæmdi í á vordögum. Hlaut Brynjar þar sjö ára fangelsisdóm fyrir kynferðisbrot gegn fimm stúlkum á grunnskólaaldri og þyngdi Landsréttur þar dóm Héraðsdóms Reykjaness um eitt ár.

Var Brynjari gert að greiða fórnarlömbum sínum samtals ellefu milljónir króna í bætur og um 25 milljónir í máls- og lögmannskostnað.

Í ákvörðun Hæstaréttar í dag kemur fram að ákæruvaldið hafi ekki talið efni til að verða við beiðni leyfisbeiðanda sem byggir beiðnina á því að málið hafi fordæmisgildi um hvort refsiákvæði 194. og 202. greina almennra hegningarlaga geti náð til þeirrar háttsemi að fjarstaddur aðili þvingi aðra til kynferðislegra athafna í einrúmi og með öðrum.

Vikið frá lögskýringafræðum

Segir svo í úrskurðinum: „Leyfisbeiðandi telur niðurstöðu meirihluta Landsréttar um 3., 5. og 17. ákærulið ranga og fer fram á að hún verði endurskoðuð. Beiðni sinni til stuðnings vísar hann til þess að í niðurstöðu héraðsdóms og minnihluta Landsréttar hafi háttsemin sem honum var gefið [sic] að sök í framangreindum ákæruliðum verið heimfærð til 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga á þeim grundvelli að um rafræn samskipti hafi verið að ræða og háttsemin geti því ekki átt undir 1. mgr. 194. gr. og 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga. Telur leyfisbeiðandi að rétturinn hafi vikið frá því sem almennt er lagt til grundvallar í lögskýringarfræðum að refsiheimildir beri að túlka þröngt.“

Í framhaldinu segir, að að virtum gögnum málsins verði að telja að úrlausn málsins um heimfærslu háttsemi leyfisbeiðanda kunni að hafa verulega almenna þýðingu í skilningi lagaákvæða sem Hæstiréttur tíundar sérstaklega í ákvörðun sinni. Því sé beiðni um áfrýjunarleyfi samþykkt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka