Fylgjast með ferðum hvalveiðaandstæðingsins

Fylgst er með ferðum skips Paul Watsons John Paul DeJoria …
Fylgst er með ferðum skips Paul Watsons John Paul DeJoria í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan

Landhelgisgæslan fylgist með ferðum skips Paul Watson, John Paul DeJoria, sem væntanlegt er hingað til landsins. Henni er kunnugt um þær yfirlýsingar sem áhöfn skipsins hefur gefið í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram í skriflegu svari Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn mbl.is.

Paul Wat­son, stofn­andi um­hverf­is­vernd­ar­sam­tak­anna Sea Shepherd, hef­ur boðað komu sína og áhafn­ar sinn­ar á skip­inu John Paul DeJoria á Íslands­mið á morg­un. Er ætlun Watsons sú að koma í veg fyrir hvalveiðar og fer hann fram á í bréfi til Alþingis að leyfi Hvals hf. verði afturkallað. 

Fylgjast með ferðum skipsins í stjórnstöðinni

„Landhelgisgæslunni er kunnugt um yfirlýsingar Paul Watson og fylgist með ferðum skipsins í stjórnstöðinni,“ segir í skriflegu svari Ásgeirs Erlendssonar upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar við fyrirspurn mbl.is.

„Skipið er ekki komið inn í íslenska efnahagslögsögu en fylgst er með ferðum þess líkt og öðrum skipum sem væntanleg eru til landsins. Áfram verður síðan fylgst með skipinu eftir að það kemur inn í lögsöguna.“

Ekki heimild til að vísa skipum úr landhelginni

Hefur landhelgisgæslan heimild til þess að vísa skipinu á brott?

„Innan íslenskrar efnahagslögsögu er skipið á alþjóðlegu hafsvæði og hefur rétt til þess að sigla þar um, að því gefnu að það fylgi þeim lögum og reglum sem þar gilda,“ segir í svari Ásgeirs. Þá segir hann Landhelgisgæsluna ekki hafa heimild til þess að vísa skipum úr landhelginni. Hún geti þó fært skip til hafnar ef grunur leikur á lögbroti.

Grípa inn í eftir aðstæðum

Hver eru viðbrögð Landhelgisgæslunnar við komu John Paul DeJoria á Íslandsmið? Verður gefin út handtökuskipun?

„Ef landhelgisgæslan verður vör við lögbrot á hafsvæðinu umhverfis Ísland er það hlutverk hennar að grípa inn í eftir aðstæðum,“ segir í skriflegu svari Ásgeirs. Hann lætur ekkert uppi um það hvort líkur séu á því að handtökuskipun á hendur Watson verði gefin út á næstu dögum.

„Landhelgisgæslan er meðvituð um alþjóðlega handtökuskipun gegn Watson sem strandgæsla Japan fékk gefna út árið 2010.“ Þetta kemur einnig fram í svari Ásgeirs.

Ekki fékkst svar við fyrirspurn mbl.is um hlutverk Landhelgisgæslunnar þegar kemur að alþjóðlegu handtökuskipuninni gegn Watson.

Ásgeir Erlendsson er upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar.
Ásgeir Erlendsson er upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar. Ljósmynd/Landhelgisgæslan
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka