Nýjum póstboxum hefur verið komið fyrir á fjölmörgum stöðum á landsbyggðinnni, nú síðast á Vestfjörðum eða Bolungarvík, Flateyri, Þingeyri, Bíldudal, Tálknafirði og Patreksfirði. Það má því segja að póstbox spretti upp víða og afhendingarstöðum hafi fjölgað töluvert á síðustu vikum. Pósthúsum hefur hins vegar fækkað mikið, eða um 43% frá árinu 2007.
Þórhildur Ólöf Helgadóttir, forstjóri Íslandspósts, segir gríðarlegar framfarir í póstþjónustu á landinu öllu en þar komi aukin tækni og sjálfvirknivæðing sterk til sögunnar. Hún óttast ekki að elsta kynslóðin heltist úr lestinni þegar kemur að tækninýjungunum, þvert á móti.
„Á landsbyggðinni erum við með þjónustuna þannig að þú getur alltaf hringt í landpóstinn og hann getur komið heim til þín og sótt. Til dæmis á Hellu og Hvolsvelli þar sem eru íbúðir fyrir eldra fólk og elliheimili, landpósturinn hefur verið duglegur að fara þangað ef þarf. Þannig að við erum alltaf með varaplan hvað þetta varðar ef viðkomandi treystir sér ekki til að nýta sér þjónustu póstboxanna. Smám saman venst fólk tækninýjungunum og verður vant þessum breytingum. Við erum því ekki hrædd við að elsta kynslóðin verði út undan þar sem við erum að reyna að koma á móts við alla, það er hluti af okkar alþjónustu að sinna öllum vel.”
Þá segir Þórhildur Ólöf þjónustu landpóstsins ná yfir landsbyggðina en á höfuðborgarsvæðinu taki pósthúsin þessa þjónustu á sig.
Aðspurð um framtíð pósthúsa hér á landi segir Þórhildur Ólöf að póstboxin komi aldrei til með að leysa þau öll af hólmi.
„Við komum aldrei til með að loka öllum pósthúsum. Stærsta pósthúsið okkar er til dæmis á Akureyri, á Norðurtanga. Ég sé til dæmis ekki fyrir mér að því verði lokað, þetta er langstærsta pósthúsið okkar. Við þurfum alltaf að hafa stað sem er í rauninni með þjónustu við svæðin. Við komum alltaf til með að vera með mannaðar þjónustustöðvar víða á landinu.“
Því verða pósthús áfram til staðar víðs vegar um landið í bland við póstboxþjónustuna. Þá hefur pósthúsunum fækkað um 35 á síðastliðnum 16 árum en þau voru 82 talsins árið 2007 en eru einungis 47 í dag.
„Það sem við gerðum fyrir löngu síðan var að við gerðum samstarfssamninga við bankana til dæmis og Samkaup og aðra aðila til þess að afgreiða póst á ákveðnum svæðum á landinu. Við sjáum fyrir okkur að það samstarf eigi eftir að verða minna og minna þar sem samleiðaráhrifin á bankaþjónustu og póstþjónustu eru orðin svo lítil í dag.“
Þá segir Þórhildur Ólöf það mikinn kost að fylla ekki lengur verslanir af pökkum sem fólk er að panta sér en víðs vegar hefur það tíðkast að hægt sé að sækja pakka í verslanir.
„Það fer mun betur á því að vera með þetta í póstboxunum þar sem fólk getur persónulega sótt sína pakka sjálft. Svo eru bréfin náttúrulega smám saman að detta út, þau verða bara færri og færri með hverjum mánuðinum sem líður. Þessi sjálfvirknivæðing sem við erum búin að vera að innleiða síðastliðin ár er að skila sér í stórbættri þjónustu við viðskiptavini og líka í auðveldari vinnuferlum.“