Kakkalakkar í fráveitulögn í Kópavogi

Kakkalakkar geta orðið 7 sentimetrar að lengd.
Kakkalakkar geta orðið 7 sentimetrar að lengd.

Kakkalakkar grasseruðu í fjölbýlishúsi í Kópavogi í um eitt og hálft ár. Heilbrigðiseftirlitið í Kópavogi telur að búið sé að koma í veg fyrir vandamálið en kakkalakkar voru komnir í fráveitulögn sem liggur á milli stigaganga þegar eftirlitið eitraði lögnina með háþrýstidælu.

Þegar hafði verið eitrað fyrir meindýrinu í húsinu og í viðleitni sinni að uppræta vandamálið þurfti að fella vegg í sorpgeymslu. Þegar það dugði ekki til kom heilbrigðiseftirlitið að málinu. 

Þorsteinn Garðarsson, umsjónarmaður fráveitu hjá Kópavogsbæ, segir að vonir standi til þess að vandamálið sé úr sögunni í fjölbýlishúsinu. Hann segir jafnframt að kakkalakkatilvik verði síalgengari um allan bæ.

Þorsteinn Garðarson, umsjónarmaður fráveitu hjá Kópavogsbæ.
Þorsteinn Garðarson, umsjónarmaður fráveitu hjá Kópavogsbæ.

Háþrýstiþvottur með skordýraeitri 

„Við ákváðum að mynda frárennslislögnina eftir að búið var að eitra og sáum nokkur dýr í lögninni sem leiðir í næsta stigagang. Því ákváðum við að háþrýstiþvo þetta með skordýraeitri," segir Þorsteinn Garðarsson.

Hann segir að reglulega berist sögur af kakkalökkum. „Við heyrum reglulega sögur af þessu um allt höfuðborgarsvæðið,“ segir Þorsteinn.  

Hann segir að kakkalakkar komi gjarnan inn í hýbýlin með innbúi innflytjenda. Viðhorf sumra þeirra til kakkalakka geti verið með öðrum hætti en þekkst hefur þar sem þeir eru algengari erlendis en hér á landi. Ekki sé endilega gripið strax til meindýravarna verði þeirra vart þar sem kakkalakkar þykja ekki alls staðar tiltökumál. „Kakkalakkar koma ekki labbandi sjálfir að húsinu. Þetta hefur nær fótfestu með þeim sem flytja inn,“ segir Þorsteinn.

Ekki fundið neitt í gildrunum 

Þorsteinn segir að kakkalakkar geti lifað við harðgerar aðstæður og jafnframt geti þeir lifað í talsvert miklum kulda. Kakkalakkar grafi sig gjarnan í jörðu til að lifa af.

„Hann er fljótur fjölga sér og það leynir sér ekkert ef við náum ekki fyrir þetta. Meindýraeyðir setur gjarnan upp gildrur til að kanna hvort þetta komi aftur upp. Í þessu tilviki hefur ekki orðið vart við neitt,“ segir Þorsteinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert