Körfuboltakörfurnar við Seljaskóla sem fjarlægðar voru 17. júní voru settar aftur upp í dag eftir fjölda kvartana.
Einar Guttormsson, íbúi við Seljaskóla í Breiðholti, hefur haft hátt um málið og lýsir yfir mikilli ánægju með að körfurnar séu komnar aftur.
„Nú geta allir glaðir spilað körfubolta hérna fram eftir degi og eins og þá lystir,“ segir hann í samtali við mbl.is og bætir hlæjandi við að nú geti krakkar hætt í símanum og farið út að leika sér.
Hann segist hafa rætt við verktaka sem setti körfuna aftur upp og í samtali þeirra hefði komið fram að körfunum fylgi nýjar umgengnisreglur. Sett verði upp skilti með reglunum til að koma til móts við íbúa sem kvartað hafa undan hávaða frá körfuboltavellinum. Þannig væri reynt að koma til móts við alla sem málið snertir.
Spurður hvort hann hafi vitað að körfurnar yrðu settar aftur upp segist Einar hafa fengið upplýsingar um það í gær.
„Ég fékk símtal frá Einari Þorsteinssyni í gær,“ segir hann og bætir við: „Hann lofaði mér að þetta yrði gert og þá helst í dag. Ég var nú ekki bjartsýnn á að þetta myndi gerast í dag en það var nú raunin! Þeir brugðust mjög hratt við.“
Þegar mbl.is náði aftali af Einari voru verktakarnir nýfarnir af vellinum og enn enginn búinn að prófa körfurnar í körfuboltaleik.
„Krakkarnir eru ekki ennþá komnir en vonandi með því að vekja athygli á að nú séu körfurnar komnar þá fara þeir að drífa sig á völlinn,“ segir Einar.