Málefni lögreglu og útlendinga brenna á þjóðinni

Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, á Bessastöðum í dag.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það sem kannski stendur upp úr á þessum tímamótum er hversu mikinn og vaxandi stuðning Jón Gunnarsson hefur haft. Það segir mér fyrst og fremst að þessir málaflokkar í dómsmálaráðuneytinu; málefni lögreglunnar, málefni útlendinga – bæði réttindi útlendinga á Íslandi en ekki síður hælisleitendamálin, eru mál sem brenna á þjóðinni.“

Þetta segir Bjarni Benediktsson í samtali við mbl.is en Jón Gunnarsson lét af embætti dómsmálaráðherra, sem hann hefur sinnt síðan í nóvember 2021. Guðrún Hafsteinsdóttir tók við embættinu af Jóni í dag eins og um var samið.

„Fólk kann að meta þegar talað er skýrt“

Bjarni hefur ekki farið leynt með ánægju sína með Jón í embætti dómsmálaráðherra en segir spennandi tíma framundan. Segir hann að Guðrún komi með sínar áherslur og sína leiðtogahæfileika að borðinu.

„Fólk kann að meta þegar talað er skýrt og lagðar eru línur um það hvers konar regluverk við viljum byggja upp á landinu. Fyrir þessu hefur Jón haft mjög góðan stuðning. Það er mikilvægt fyrir Guðrúnu að vita að þetta eru mál sem liggja nærri hjarta þjóðarinnar að séu lagðar skýrar línur um,“ segir Bjarni.

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra yfirgefur Bessastaði í dag.
Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra yfirgefur Bessastaði í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert