Mygla greindist á Bifröst og húsnæðinu lokað

Horft yfir Bifröst í Borgarfirði.
Horft yfir Bifröst í Borgarfirði. mbl.is/Árni Sæberg

Mygla greindist í Háskólanum á Bifröst í síðustu viku eftir að starfsfólk og nemendur kvörtuðu undan einkennum vegna myglu. Byggingum skólans hefur því verið lokað tímabundið. Þetta staðfestir Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor háskólans, í samtali við mbl.is.

Að sögn Margrétar greindist mygla bæði í gömlu og nýju byggingu skólans en háskólahátíð skólans þar sem 125 nemendur voru brautskráðir á laugardaginn fór fram í Hjálmkletti, húsnæði Menntaskóla Borgarfjarðar, vegna lokanna í Bifröst. 

Óvíst hve lengi verður lokað

„Það er rúm vika síðan við fengum sýnin úr greiningu frá Akureyri. Það greindist hjá okkur mygla og nú erum við að bíða eftir því að komast að hjá verkfræðistofunni Eflu sem að aðstoðar okkur við að meta þetta og hvað þarf að gera.

Það hafa komið upp einkenni en besta leiðin til að greina þetta er fólkið sem hefur áður veikst í öðrum híbýlum. Það þolir ekki að koma í húsnæði þar sem er mygla. Ég hef bæði fengið viðbrögð frá nemendum og starfsfólki,“ segir Margrét.

Hún segir að hún og aðrir skólastjórnendur séu ekki komin með yfirsýn yfir hversu alvarleg eða dreifð myglan er en bætir við að það sé verkefni sumarsins. Spurð hve lengi byggingarnar muni vera lokaðar bendir Margrét á að skólinn sé fjarkennsluháskóli. Hún segir að skólinn þurfi bara að hugsa út fyrir kassann. 

Tækifæri í erfiðum aðstæðum

Elstu skólabyggingarnar á Bifröst voru friðlýstar af Minjastofnun árið 2020 en spurð hvort að það muni leggja stein í götu framkvæmda til að sporna gegn myglunni svarar Margrét: 

„Á kínversku þýðir krísa tækifæri. Það eru alltaf tækifæri í öllum aðstæðum sem koma upp. Ég ætla bara að skoða þetta og fara yfir þetta og þegar ég hef yfirsýn þá get ég sagt eitthvað en eins og staðan er í dag þá vitum við það einfaldlega ekki.“

Spurð hvort að þetta hafi áhrif á hótelrekstur á svæðinu yfir sumarið segir hún að hótelsreksturinn sé ekki í húsnæði háskólans og að annar eigandi sé yfir því húsnæði.

Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, fyrir miðju myndarinnar. …
Margrét Jónsdóttir Njarðvík, rektor Háskólans á Bifröst, fyrir miðju myndarinnar. Ólína Kjerúlf Þorvarðardóttir, deildarforseti félagsvísindadeildar, til hægri og Elín H. Jónsdóttir, deildarforseti lagadeildar, til vinstri. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert