Kjarasamningur BSRB við Samband íslenskra sveitarfélaga (SÍS) var samþykktur í atkvæðagreiðslu ellefu aðildarfélaga BSRB. Atkvæðagreiðslunni lauk um hádegi í dag en mikill meirihluti félagsmanna aðildarfélaganna samþykktu samninginn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá BSRB.
„Mánaðarlaun hækka samkvæmt samningi um að lágmarki 35.000 kr. og desemberuppbót á árinu 2023 verður 131.000 kr. Samkomulag náðist einnig um sáttagreiðslu að upphæð 105.000, auk þess sem var samið um hækkun á lægstu launum og viðbótargreiðslur fyrir tiltekin starfsheiti. Samningurinn gildir frá 1. apríl 2023 til 31. mars 2024,“ segir í tilkynningunni.
Um 90 prósent félagsmanna samþykktu samninginn í öllum ellefu aðildarfélögunum. Fæstir samþykktu samninginn í Sameyki á Seltjarnarnesi og Akranesi eða 87,96%. Flestir samþykktu samninginn í aðildarfélaginu Starfsmannafélag Vestmannaeyja eða 95,1 prósent.
Haft er eftir Sonju Ýr Þorbergsdóttur, formanni BSRB, í tilkynningunni að félagsfólk sé hóflega sátt með samninginn og að með kjarasamningnum sé tekið skref í rétt átt svo að laun endurspegli verðmæti starfsmanna stéttarfélagsins.
„Það er óþolandi að það hafi þurft svo umfangsmiklar aðgerðir til að ná fram réttlátum og sanngjörnum kröfum þeirra. Verkföllin skiluðu þó meira en kjarabótum því þau sýndu sveitarfélögunum svart á hvítu hversu ómissandi starfsfólk þeirra er.“