Setja upp 30 km stofnstígakerfi

Innleiðing stofnstígakerfis um Hafnarfjörð er lykilatriði í nýrri Hjólastefnu bæjarins.
Innleiðing stofnstígakerfis um Hafnarfjörð er lykilatriði í nýrri Hjólastefnu bæjarins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Hafnarfjarðarbær stefnir á að fjölga talsvert þeim sem ferðast hjólandi á næstu sex árum. Þetta markmið á að nást með því að bæta hjólreiðakerfi bæjarins og tryggja hjólreiðasamgöngur allt árið. Þetta kemur fram í Hjólastefnu Hafnarfjarðarbæjar 2023-2029 sem nýlega var birt.

Er stefnunni ætlað að bregðast við áskorunum á borð við breyttar ferðavenjur, íbúafjölgun, breyttar húsnæðisþarfir, samkeppnishæfni, loftslagsmál og lýðheilsu. Þá er stefnt á að í það minnsta 15% allra ferða innanbæjar verði farnar á hjóli árið 2029. Ferðir farnar til vinnu á hjóli skuli þá nema að minnsta kosti 10% og að ferðir nemenda innan bæjarins á hjóli að lágmarki 30%.

Tilraunaverkefni um útlán rafmagnshjóla

Meðal aðgerða bæjaryfirvalda til að fjölga hjólreiðafólki er tilraunaverkefni um útlán á rafmagnshjólum og veiting samgöngustyrks fyrir að nýta sér virkari ferðamáta til vinnu. Með „virkari ferðmáta“ er þá átt við ferðir farnar gangandi og hjólandi á reiðhjólum, rafmagnshjólum eða rafmagnshlaupahjólum

Kerfi fjögurra stofnstíga innleitt

Lykilatriði í stefnunni er innleiðing stofnstígakerfis með tengingum við öll hverfi bæjarins og nágrannasveitarfélög. Samkvæmt aðalskipulagi skulu stofnstígar vera 3 - 3,5 metra breiðir, lagðir bundnu slitlagi og upplýstir. Þá skuli gert ráð fyrir undirgöngum, brúm eða gönguljósum þar sem stofn- og tengibrautir skerast. Þessi gerð stíga á því að vera hentug fyrir reiðhjól, göngufólk og hjólastóla.

Yfirlitsmynd Hafnarfjarðarbæjar af áætluðu stofnstígakerfi bæjarins. Bláa leiðin er fyrsti …
Yfirlitsmynd Hafnarfjarðarbæjar af áætluðu stofnstígakerfi bæjarins. Bláa leiðin er fyrsti áfangi kerfisins.

Áætlað er að væntanlegt stofnstígakerfi Hafnarfjarðar samanstandi af fjórum stofnleiðum sem verða samanlagt um 30 km langar. Er þá fyrsti áfangi stofnstígakerfisins leið frá norðri til suðurs í gegnum Hafnarfjörð, frá Ásvallabraut í gegnum miðbæinn og endar við Hrafnistu.

Í skýrslu stefnunnar kemur fram að krefjandi verði að koma stofnstígum fyrir í grónum og eldri hverfum bæjarins en næstu sex ár skuli ávallt gera ráð fyrir hjólandi umferð við endurgerð gatna.

Vetrarþjónusta aukin á göngu- og hjólastígum

Stefnt er á að hjólreiðafólki í bænum fjölgi og er þá lagt upp úr því að aðgengi fólks að hjólreiðasamgöngum sé tryggt allt árið um kring. Þá er meðal annars stefnt á að auka vetrarþjónustu á göngu- og hjólastígum þannig að stofnstígar séu greiðfærir kl. 7:30 að morgni á virkum dögum. Hreinsun stíga skal þá einnig vera jafnari allan ársins hring og stofnstígum alltaf haldið opnum.

Stefnt að kolefnishlutlausu samfélagi

Gert er grein fyrir því að mikilvægt sé að Hafnarfjörður skapi hvata fyrir bæjarbúa til að ferðast á hjóli, ekki síst til auka valfrelsi íbúa og stefna að kolefnishlutlausu samfélagi. Þá geti bættar hjólareiðasamgöngur einnig gert Hafnarfjörð að spennandi áfangastað fyrir margvíslegar hjólreiðar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert