Sjö manndráp á rétt rúmu ári

Sex manndrápsmál voru á síðustu tólf mánuðum.
Sex manndrápsmál voru á síðustu tólf mánuðum. Samsett mynd

Sex manndrápsmál hafa átt sér stað hér á landi síðan í byrjun júní á síðasta ári. Sjö hafa látið lífið í umræddum manndrápsmálum en margir lýsa áhyggjum vegna þessarar tölfræði þar sem manndráp hafa verið tiltölulega fá á hverju ári á Íslandi til þessa.

Að sögn lögreglunnar eru á milli 1,7 til 1,8 manndrápsmál á hverju ári á Íslandi ef litið er til lengri tíma. Athygli vekur að síðan í lok apríl á þessu ári hafa verið framin þrjú manndráp og virðist tíðni manndrápa á hverju ári aukast. 

Þrjú manndráp á tveimur mánuðum

Nýjasta manndrápsmálið átti sér stað á laugardaginn þegar pólskur ríkisborgari á fimmtugsaldri fannst meðvitundarlaus í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði en einn maður er í gæsluvarðhaldi vegna þessa. Maðurinn var líklegast stunginn til bana. Rannsókn málsins er enn á grunnstigi.

Athygli vekur að aðeins tveir mánuðir eru síðan að annar maður var stunginn til bana við Fjarðarkaup í Hafnarfirði eða þann 20. apríl. Þar voru þrír menn úrskurðaðir í gæsluvarðhald sem rennur út í dag. Enn sem komið er hefur ekki verið gefin út ákæra til héraðssaksóknara vegna málsins.

Þriðja málið á þessu ári er andlát konu á þrítugsaldri á Selfossi þann nítjánda maí. Konan fannst látin í heimahúsi en tveir menn voru handteknir á vettvangi vegna gruns um manndráp og stendur rannsókn lögreglu enn yfir. Annar mannanna var síðan látinn laus en hinn sætir enn þá gæsluvarðhaldi sem rennur út 30. júní.

Þrjú manndrápsmál á síðasta ári

Þá komu upp þrjú manndrápsmál á seinni helmingi síðasta árs, en nýjast er manndrápið á Ólafsfirði þann þriðja október á síðasta ári þar sem maður var stunginn til bana á heimili þar sem eiginkona hans var við gleðskap. Enn er rannsakað hver af sakborningunum þremur stakk manninn til bana en einn sakborninganna var eiginkona mannsins. Enginn er þó í varðhaldi vegna málsins.

Skotárás á Blöndósi þar sem tveir létust og einn særðist alvarlega átti sér stað 21. ágúst á síðasta ári. Eins og greint hefur verið frá réðst árásamaður inn á heimili hjóna á Blönduósi og skaut konu og mann. Konan lést en eiginmaður hennar særðist alvarlega. Sonur húsráðandans náði byssunni af árásarmanninum inn í húsinu. Við það brutust út mikil átök út á milli árásarmannsins og sonarins sem endaði á því að árásamaðurinn lést.

Mál gegn syninum var síðar fellt niður á grundvelli neyðarvarnar. 

Sjötta málið á síðastliðnum tólf mánuðum átti sér stað fjórða júní á síðasta ári þegar að Magnús Aron Magnússon varð Gylfa Bergmann Heimissyni að bana á heimili hans við Barðavog. Lækn­ar sem gáfu skýrslu fyr­ir dómi sögðu árás­ina vera með því ofsa­fyllsta sem sést hefur í árás­um þar sem ekkert áhald var notað. 

Magnús var dæmd­ur til 16 ára fang­elsis­vist­ar fyr­ir mann­dráp af ásetn­ingi fyrir Héraðsdómi Reykja­vík­ur þann 27. apríl. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert