Skálað í tilefni kvenréttindagsins

Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélagsins.
Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélagsins. mbl.is/Árni Sæberg

Líkaminn er þema 19. júní, ársrits Kvenréttindafélagsins, sem kemur nú út í ár í 72. sinn. Útgáfu ritsins verður fagnað í bruggsmiðju Lady Brewery klukkan 17 í dag á sjálfan kvenréttindadaginn. Þá verður jafnframt skálað fyrir því að konur á Íslandi, 40 ára og eldri, fengu kosningarétt og kjörgengi til Alþingis þann 19. júní 1915. „Það eru allir velkomnir að fagna með okkur,“ segir Tatjana Latinovic, formaður Kvenréttindafélagsins.

19. júní er meðal elstu blaða sem gefin eru út á landinu og er því dreift meðal félagsfólks sem er í dag um 700 talsins. Alda Lóa Leifsdóttir er ritstýra blaðsins í ár.

„Í ár skoðum við líkamann frá ýmsum hliðum, birtum meðal annars viðtöl og ljóð í takt við það, en það eru 14 greinar í ritinu í ár,“ segir Tatjana og bætir við að efnið sem birtist í ritinu sé fjölbreytt og taki ýmist á þeim áskorunum sem kvennabaráttan stendur frammi fyrir í dag eða fagni þeim árangri sem félagið hefur náð frá stofnun þess. „Til dæmis er ein grein um Kvennalistann sem var stofnaður fyrir 40 árum, önnur um druslugönguna á Sauðárkróki, viðtöl við ungt fólk um líkamann og ýmislegt fleira.“ Sjálf flytur svo Tatjana erindi í þættinum Uppástand í hádeginu í dag á Rás 1, um Bríeti Bjarnhéðinsdóttur, stofnanda félagsins.

Enn áskoranir

Kvenréttindafélagið stendur fyrir ýmsum viðburðum allt árið um kring, en t.d. var Kynjaþing haldið 13. maí sl. í Veröld – húsi Vigdísar. Þingið er árlegur viðburður sem ætlaður er sem vettvangur til þess auka samræður milli félagasamtaka sem láta sig jafnrétti varða.

„Einnig felst stór hluti af starfi okkar í að standa vörð um réttindi kvenna á Íslandi. Félagið skrifar umsagnir um lagafrumvörp og opinberar skýrslur, við höldum reglulega opna fundi og málþing um jafnréttismál og reynum að styðja önnur grasrótarfélög hér á landi, sérstaklega þau sem eru yngri, en félagið er líka mjög virkt erlendis.“

Tatjana segir að þótt Ísland standi mjög framarlega í réttindabaráttu kvenna miðað við önnur lönd, þá standi konur enn frammi fyrir ýmsum áskorunum sem verði að taka á. „Við megum ekki sofna á verðinum, en í dag finnst okkur í félaginu alveg sérstaklega mikilvægt að útvíkka jafnréttisbaráttuna þannig að hún nái til allra sem búa hér á landi óháð uppruna, félagsstöðu, kynvitundar eða öðru.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert