Söguleg stólaskipti á kvenréttindadegi

Í fyrsta sinn í sögu Sjálfstæðisflokksins eru konur í meirihluta …
Í fyrsta sinn í sögu Sjálfstæðisflokksins eru konur í meirihluta í ráðherraliði hans. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Í dag, á kvenréttindadegi, 19. júní urðu söguleg stólaskipti í ríkisstjórn Íslands. Í fyrsta sinn í sögu Sjálfstæðisflokksins eru konur fleiri en karlar í ráðherraliði flokksins. Þá eru jöfn kynjahlutföll í ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur en síðast voru jöfn kynjahlutföll í ríkisstjórn Íslands árið 2009.

„Mér þykir það einstaklega táknrænt“

Guðrún tók sem kunnugt er við embætti dómsmálaráðherra af Jóni Gunnarssyni í dag. Segir hún í samtali við mbl.is að það hafi mikla þýðingu fyrir sig og konur í stjórnmálum.

„Mér þykir mjög vænt um þennan dag. Í dag eru 108 ár síðan konur yfir fertugu fengu að kjósa á Íslandi. Öllum konum á Íslandi þykir vænt um þennan dag og mér þykir það einstaklega táknrænt að ég fái að setjast inn í ríkisstjórn Íslands á þessum degi sem og að það verði Sjálfstæðiskonur að meirihluta sem Bjarni Benediktsson skipar í ríkisstjórn Íslands.“

Ráðherralið Sjálfstæðisflokksins skipa:

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra

Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra

Guðrún Hafsteinsdóttir dómsmálaráðherra

Skapa nánari tengingu við fólkið í landinu

Þá segir Guðrún skipan sína í embætti hafa mikla þýðingu fyrir Suðurkjördæmi. Segir hún Sjálfstæðisflokkinn haf myndað þrár ríkisstjórnir í röð án þess að Suðurkjördæmi hafi haft ráðherra í ríkisstjórn. Segir oddviti flokksins í kjördæminu ráðherraskiptin í dag auka vægi kjördæmisins.

Bjarni Benediktsson tekur undir orð Guðrúnar. Hann segir það hafa töluverða pólitíska þýðingu að kjósendur finni að þeir hafi tengsl við ráðamenn. Hann segist reyndar vera þeirrar skoðunar að kjördæmin séu of stór og að helst ætti að skipta þeim upp í tvennt á ný og skapa þannig enn nánari tengingu þingmanna og ráðherra við fólkið í landinu.

Segist hann gjarnan vilja beita sér fyrir því að sú breyting nái fram að ganga. „Að það sé hlustað á fólkið í landinu. Það er það sem maður finnur þegar maður fer um landið að fólki finnst eftir kjördæmabreytinguna 1999 að það sé orðið dálítið langt í ráðamenn,“ segir Bjarni.

Bjarni Benediktsson ræðir við blaðamenn á Bessastöðum í dag.
Bjarni Benediktsson ræðir við blaðamenn á Bessastöðum í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert