Guðný Bára Jónsdóttir, verkefnastjóri hjá lýðræðis- og mannréttindastofu Reykjavíkurborgar og Eiríkur Búi Halldórsson, verkefnastjóri verkefnisins Hverfið mitt, virðast hafa átt í fjörugu spjalli á Messenger á meðan fundi íbúaráðs Laugardals stóð. Spjall þeirra birtist í beinni útsendingu af fundinum.
Í spjalli sínu ræddu þau ýmsar leiðir til að forðast eða afvegaleiða spurningar um dagvistunarmál. Guðný segir: „Alltaf gott að þegja og gera ekki neitt. Láttu eins og þetta komi þér ekki við.“
DV greindi frá uppákomunni en hún varð á fundi ráðsins hinn 12. júní síðastliðinn.
Fundurinn var sýndur í beinni útsendingu á YouTube og síðar vistaður þar. Hann hefur nú verið tekinn úr birtingu. DV birtir skjáskot af útsendingunni þar sem sjá má brot úr spjalli Eiríks og Guðnýjar.
Á fundinum varpaði Eiríkur Búi upp skjá sínum og deildi með útsendingunni og fundarmönnum Facebook-síðu sinni. Þar sást samtal þeirra Guðnýjar af fundinum.
Eiríkur Búi hrósar sigri í spjallinu eftir fund íbúðaráðsins, þar sem hann hafi komist undan öllum spurningum um dagvistunarmál með eftirfarandi orðum: „Sagði bara don't shoot the messenger and don't hate the player.“
Í spjalli þeirra tveggja kímdi Guðný við eftir þessi ummæli.