Guðrún Hafsteinsdóttir, sem er tiltölulega reynslulítill þingmaður en með víðtæka stjórnunarreynslu úr atvinnulífinu, segir í samtali við mbl.is að þegar hún líti til baka yfir þá 18 mánuði sem hún hefur starfað sem þingmaður og meðal annars leitt efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis, sé hún að sjálfsögðu þakklát fyrir að taka með sér reynsluna inn í embætti dómsmálaráðherra.
Guðrún tók sem kunnugt er við embætti dómsmálaráðherra á ríkisráðsfundi á Bessastöðum í dag. Hún var oddviti Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi í Alþingiskosningunum árið 2021 og leiddi flokkinn til sigurs í kjördæminu. Þannig settist hún á þing í fyrsta sinn í nóvember sama ár. Bæði hún sjálf og kjördæmisráð flokksins kölluðu eftir því að Guðrún fengi ráðherraembætti strax við myndun ríkisstjórnar.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins og fjármálaráðherra, taldi rétt að Jón Gunnarsson fengi að spreyta sig aftur sem ráðherra við myndun ríkisstjórnarinnar 2021 og að Guðrún tæki við ráðherraembætti á þessum tímapunkti reynslunni frá Alþingi ríkari.
„Bjarni nefndi það á sínum tíma fyrir rúmum 18 mánuðum að ég fengi tækifæri til að kynnast þinginu og það hefur verið mér gríðarlega dýrmætt.
Það er einstakur vinnustaður að starfa við Austurvöll og ég mun sakna félaga minna þar úr öllum flokkum í þessum daglegu störfum en vona að mér takist að halda góðu sambandi við alla þar, bæði þjóðkjörna og starfsmenn,“ segir Guðrún.
Bjarni viðurkennir að hafa íhugað aðra kosti í stöðunni en þann sem var markaður við upphaf endurnýjaðs ríkisstjórnarsamstarfs og sem raungerðist í dag.
„Það er aldrei neitt sjálfsagt í þessum efnum og auðvitað var það mér til umhugsunar hversu mikinn stuðning Jón hefur haft en ég veit að Jón verður áfram öflugur þingmaður og svo má alltaf segja að það er ekkert meitlað í stein í þessu efni.“
Var reynsluleysi Guðrúnar öðru fremur til þess að hún kom ekki inn í ríkisstjórn strax í upphafi þrátt fyrir góðan sigur flokksins í Suðurkjördæmi?
„Hvort tveggja. Af fenginni reynslu skiptir það ráðherra gríðarlega miklu máli að skilja hvernig hjartað slær í þinginu og hvernig það gangverk er allt saman en síðan átti Jón það líka bara mjög vel inni að fá tækifæri til að spreyta sig aftur sem ráðherra,“ segir Bjarni.