Undanfarinn mánuð hefur sólin gælt við Norður- og Austurland en á morgun mun veðrið þar versna og besta veðrið á landinu vera á Suðvestur- og Vesturlandi. Þetta kemur fram í samtali mbl.is við Harald Eiríksson veðurfræðing hjá Veðurstofu Íslands.
„Það er búið að vera mjög fínt á Austurlandi í júní en á morgun verður skammvinn norðanátt með rigningu og svölu veðri fyrir norðan og austan,“ segir Haraldur en tekur þó fram að þetta veður verði bara á morgun, svo batni það aftur.
Aftur á móti verði sennilega „þokkalegasta veður“ á Suðvestur- og Vesturlandi á morgun. Um miðja viku ætti svo að vera sæmilegt veður um allt land.
„Á miðvikudaginn og fimmtudaginn ætti veður að vera nokkuð gott á öllu landinu. Það verður ekki eins hlýtt og það hefur verið en ágætis veður,“ segir hann og bætir við: „Þannig að ég myndi segja þeim sem eru að hugsa um einhver ferðalög fram eftir vikunni að fara bara þangað sem þeir vilja.“
Hann hvetur fólk sem vill elta góða veðrið til að horfa nokkra daga fram í tímann og fylgja spá Veðurstofunnar.