Tólf ára handboltastrákur úr Laugardal hefur undanfarna daga boðið til sölu rabarbara til að fjármagna keppnisferð til Svíþjóðar. Eftirspurnin reyndist meiri en hann gerði ráð fyrir en hann dó ekki ráðalaus.
Kappinn er 12 ára og heitir Húni Georg Douglas Valgeirsson. Spilar hann handbolta með 5. flokki Víkings. Ætla þeir félagarnir í flokknum að fara á Partille Cup sem mörgum handboltaáhugamanninum er góðkunn keppni.
Eins og margir þekkja er ýmsum leiðum beitt í fjáröflunarmálum. Þannig eru til heilu fjölskyldurnar sem ekki hafa verslað klósettpappír í stórmarkaði árum saman þar sem þetta er gjarnan sent heim að dyrum af spræku ungmenni á leið til keppni.
Húni ákvað hins vegar að fara aðra leið fyrir tilstilli Önnu Ellenar, móður sinnar. „ Mamma bað mig um að taka upp rabarbara og það er bara góð hugmynd að selja hann,“ segir Húni.
Hann segir að uppskeran hafi verið tíu kíló og var hvert kíló selt á eitt þúsund krónur. Rabarbarinn var ekki lengi að rjúka út. Raunar var eftirspurnin umfram framboðið. „Það voru eiginlega of margir sem vildu rabarbara,“ segir Húni og bætir því við að flestir viðskiptavina hafi komið úr hverfinu en hann býr á Langholtsvegi.
Eins og góðum rabarbarasala sæmir dó hann þó ekki ráðalaus og leitaði á náðir nágranna sem átti vel þroskaða rabarbara í nærliggjandi garði. „Ég fæ gefins rabarbara hjá nágrönnum,“ segir Húni.
Sjálfur kveðst hann ekkert sérlega sólginn í rabarbara. „Hann er ekkert það góður. Bara fínn. Hann er svolítið súr,“ segir Húni.
Spurður segist hann vera býsna góður í handbolta. „Já ég myndi segja það. Ég vona að okkur gangi vel í mótinu úti.“
Hann segist fylgjast vel með handbolta og á sér uppáhalds handboltamann sem spilar með Val. „Það er Stiven,“ og vísar þar til landsliðsmannsins Stiven Tobara Valencia hornamannsins knáa.
Hann segist líka fara stundum á leiki hjá Víkingi og á sér þann draum að spila með þeim í efstu deild í meistaraflokki einn daginn. „Ég vona það,“ segir Húni.