Guðni Ágústsson, fyrrverandi ráðherra, hyggst ræða Njálssögu í Þingvallagöngu á fimmtudag. Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra flytur ávarp, auk þess sem Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona flytur kvæðið Gunnarshólma. Karlakórinn Öðlingarnir syngur einnig nokkur lög, þar á meðal lagið Skarphéðinn í brennunni.
Gengið verður af stað klukkan átta að kvöldi til og hefst samkoman við upplýsingamiðstöðina á Hakinu og þaðan er gengið niður Almannagjá að Lögbergi.
Að lokum verður gengið að Þingvallakirkju, þar sem athöfninni lýkur klukkan tíu.
Guðni hyggst fræða viðstadda um Njálssögu og atburði hennar en að þessu sinni lítur hann á söguna út frá nýju sjónarhorni. Litið verður til fremstu kvenpersóna sögunnar, en þær koma víða fyrir og ráða í raun stærstu örlögum sögunnar, að sögn Guðna. Ástir og örlög ráða för í Njálu og því ávallt gaman að setja Njálu á svið segir Guðni. Líkt og frægt er orðið, „köld eru kvennaráð“.
Spáð er blíðu á fimmtudagskvöldið og því kjörið að gera sér ferð til Þingvalla og hlýða á dagskrána.