Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, hefur óskað eftir lausn frá störfum við stjórn samtakanna. Auður hefur gegnt starfinu frá 1. maí 2018.
Í tilkynningu frá samtökunum segir að starfslokin eigi sér nokkurn aðdraganda og snúist hvorki um persónur og leikendur né ósætti eða óánægju af hálfu framkvæmdastjóra eða stjórnar.
„Ástæður starfslokanna eru að meginuppistöðu tvær, annars vegar að í svo áberandi og umfangsmikilli baráttu er nauðsynlegt að skipta reglulega um forystu og hins vegar að þau gríðarlega flóknu og erfiðu úrlausnarefni sem umhverfismálin eru ásamt ábyrgð á stjórnun og rekstri stórra samtaka taka persónulegan toll. Ég er gríðarlega þakklát fyrir þennan tíma með Landvernd sem hefur verið algjörlega frábær og fyrir að fá að vinna fyrir íslenska náttúru og að alþjóðlegum umhverfisvanda með almannahagsmuni og langtímasjónarmið að leiðarljósi. Þá eru það mikil forréttindi að starfa með öllu frábæra fólkinu í Landvernd, félögum, stjórn og starfsfólki. Ég mun áfram styðja dyggilega við starf Landverndar og baráttuna fyrir betri heimi fyrir öll,” er haft eftir Auði.