Brunavarnir Árnessýslu telja mögulegt að eldurinn í Meitilshúsinu í gærkvöldi hafi kviknað út frá olíu sem verið var að bera á timbur. Lögreglan á Suðurlandi rannsakar nú eldsupptök.
Pétur Pétursson, slökkviliðsstjóri brunavarna Árnessýslu, segir slökkviliðið hafa gengið út frá því á vettvangi að eldurinn hafi mögulega kviknað út frá olíunni. Hann ítrekar þó að ekkert liggi ljóst fyrir um eldsupptök og rannsókn sé í höndum lögreglu.
„Eldurinn var staðbundinn í stóru rými á miðhæð hússins og það virtust ekki vera nein rafmagnstæki þar við. Þarna var verið að olíubera timbur þannig að það má leiða að því líkur að þarna hafi mögulega verið sjálfsíkviknun, eins og stundum gerist þegar verið er að vinna með svona efni.
Þetta er það sem við gengum út frá á vettvangi að væri líkleg orsök, en það getur auðvitað breyst þegar málið er skoðað betur.“
Á bilinu 30 til 40 slökkviliðsmenn tóku þátt í að slökkva eldinn og reykræsta húsið.
Pétur segir ekki mikið tjón hafa orðið út frá brunanum sjálfum en að mikill reykur sé í húsinu og við taki mikil vinna við þrif.
„Í rýminu sem brann er allt í loftinu ónýtt, það er að segja lagnir og ljós. Reykræsting gekk vel, þetta er stórt og mikið hús. Við erum með öfluga blásara og annað og það gekk bara vonum framar,“ segir hann og bætir við að slökkviliðið hafi verið í um þrjár klukkustundir á vettvangi.
Mikill viðbúnaður var í Þorlákshöfn en slökkviliðsmenn frá brunavörnum Árnessýslu í Þorlákshöfn og Hveragerði voru kallaðar út, auk helmings starfsstöðvarinnar á Selfossi.