Ferðaþjónustan setji þrýsting á innviðina

Mat­hi­as Cormann, fram­kvæmda­stjóri OECD.
Mat­hi­as Cormann, fram­kvæmda­stjóri OECD. mbl.is/Árni Sæberg

Ísland nálgast þolmörk þegar kemur að sjálfbærni í ferðaþjónustu og eru erlendir ferðamenn sem heimsækja landið árlega um sexfalt fleiri en fjöldi íbúa. 

Þetta kom fram í máli Mathias Cormann, framkvæmdastjóra Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD), þegar hann kynnti helstu niðurstöðu skýrslu stofnunarinnar um íslenskt efnahagslíf.

Í skýrslunni er því beint til stjórnvalda að skattaundanþágur ferðaþjónustunnar verði afnumdar og greinin færð í almenna virðisaukaskattsþrepið.

Fáar berandi stoðir

Á blaðamannafundi í fjármálaráðuneytinu í dag sagði Cormann að ferðaþjónustan hafi átt veigamikinn hlut í þeim hagvexti sem hér hefur verið, eftir að slakað var á samkomutakmörkunum vegna Covid-19. Sömuleiðis hefði það haft mikil neikvæð áhrif á hagkerfið þegar greinin lagðist nánast niður fyrir þremur árum vegna heimsfaraldursins.

Spurður hvort íslenska hagkerfið reiði sig um of á ferðaþjónustuna, sem geri hagkerfið viðkvæmara fyrir vikið, segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra:

„Það má kannski bara segja almennt um íslenska hagkerfið að það hefur verið borið uppi af tiltölulega fáum berandi stoðum og það er fagnaðarefni að ferðaþjónustan sé orðin þetta öflug stoð til viðbótar við sjávarútveg og orkufrekan iðnað í landinu. Aðrar greinar eru sömuleiðis að vaxa þannig að ég tel að hagkerfið í heild sinni sé fjölbreyttara og sterkara með ferðaþjónustunni en við þurfum að gæta okkar á því að það geta komið sveiflur, alveg eins og hefur gerst sögulega í sjávarútveginum.“

Bjarni tekur fram að heimsfaraldurinn hafi verið „hinn fullkomni stormur“ er varðar ferðaþjónustuna og býst hann ekki við að þessar aðstæður komi upp í náinni framtíð.

„Það nánast slokknaði alfarið á greininni. Ég ætla ekki að útiloka að það geti gerst aftur í framtíðinni en það er mjög ólíklegt að það gerist ítrekað með jafn dramatískum hætti eins og var nú síðast. Það sem við höfum kannski frekar til að hugsa um varðandi ferðaþjónustuna er hvernig við getum vaxið á sjálfbæran hátt þannig ekki reyni um of á innviðina.“

Skortur á húsnæði

Ráðherrann segir að ábendingar OECD sem kynntar voru í skýrslu beinist að þeim mikla þrýstingi sem vöxtur ferðaþjónustunnar setji á innviðina í landinu.

„Það þýðir samgöngukerfið, það getur birst okkur í heilbrigðiskerfinu, það birtist okkur í skorti á húsnæði fyrir vinnuafl – víða um landið þetta þekkjum við ágætlega þegar við förum um landið, þá kemur iðulega í ljós að þeir sem eru í ferðaþjónustunni eru í vandræðum með að finna húsnæði fyrir starfsfólk. En á höfuðborgarsvæðinu sömuleiðis er þrýstingur á húsnæðismarkaði. Það fylgja því miklar áskoranir að sjá svona öran vöxt í einni atvinnugrein.“

Hvað varðar afnám ívilnana segir Bjarni stærsta skrefið á næsta ári í þeim efnum vera afnám ívilnana er varða ökutæki og umferð.

„Þar höfum við verið að beita ívilnunum til þess að auka hlutfall umhverfisvænna bíla í flotanum. Þeir eru nú að verða hagkvæmari í framleiðslu og ódýrari og við teljum raunhæft að byrja að draga úr þessum ívilnunum. Fyrir ferðaþjónustuna höfum við tekið úr sambandi tímabundið eldri gjaldstofna og erum núna að setja saman áætlanir um það hvernig þeir geta komið aftur til sögunnar. Til dæmis þykir okkur vera eðlilegt að skemmtiferðaskipin sem eru um allt land í sumar mörg - og þeim hefur farið fjölgandi á undanförnum árum, að þau greiði gjald eins og aðrir.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert