Garðbæingar ganga ekki fyrir

Útsýnið úr Hnoðraholti þykir einkar eftirsóknarvert.
Útsýnið úr Hnoðraholti þykir einkar eftirsóknarvert. Ljósmynd/Ásta Sigrún Magnúsdóttir

„Við erum sem sagt að selja lóðir í því sem við köllum Hnoðraholt norður í tveimur áföngum og salan á fyrri hlutanum er bara yfirstandandi núna en tilboðsfresturinn rennur út eftir rúma viku eða þann 29. júní. Þetta gerum við í tveimur hlutum og það er þá þannig að við erum núna að selja lóðir undir fjölbýli, eina parhúsalóð, fimm raðhúsalóðir sem eru nítján íbúðir og sjö einbýlishús,“ segir Almar Guðmundsson, bæjarstjóri Garðabæjar, í samtali við mbl.is.

Umsóknarfrestur til að sækja um lóðir í fyrstu úthlutun Garðabæjar í Hnoðraholti norður lýkur þann 29. júní. Þá verða tilboð opnuð og tekin fyrir á fundi bæjarráðs Garðabæjar þriðjudaginn 4. júlí. Því mega þeir sem sækja um lóð eiga von á því að fá svar fljótlega eftir það.

Hér má sjá skipulag lóða í Hnoðraholti norður.
Hér má sjá skipulag lóða í Hnoðraholti norður. Ljósmynd/Garðabær

Eftirsóknarverð staðsetning

Almar segir mikinn áhuga á þessu nýja hverfi sem er að rísa og úthlutun lóðanna sé beðið með eftirvæntingu.

„Þetta svæði hefur verið í þó nokkurn tíma í undirbúningi hjá okkur, Hnoðraholtið í heild sinni en þetta er nú bara hluti af því svæði, og við verðum vör við mikinn áhuga og erum glöð að geta boðið upp á nokkuð mikið hátt hlutfall af sérbýli sem að kannski almennt á höfuðborgarsvæðinu hefur verið minna af hlutfallslega. Þannig að við erum ánægð með það og finnum að það er áhugi á því. Í þessu tilfelli þá aðallega á rað- og einbýlishúsum, það eru fá parhús þarna.“

Að sögn Almars verður töluvert af sérbýlislóðum til sölu í …
Að sögn Almars verður töluvert af sérbýlislóðum til sölu í Hnoðraholti. Ljósmynd/Garðabær

Þá segir hann lykilforsendur áhugans á hverfinu felast einna helst í því að það sé vel í sveit sett og miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu.

„Þessi staður er mjög vel tengdur í allar umferðaræðar og svo er náttúran auðvitað líka bara í bakgarðinum.“

Verða að uppfylla ákveðnar reglur

Þá geta allir sem vilja sótt um lóðir, óháð núverandi búsetu en spurður að því hvort Garðbæingar fái forgang þegar kemur að úthlutun lóðanna segir Almar svo ekki vera.

„Það gilda um þetta skilmálar. Það sem fólk eða lögaðilar þurfa að uppfylla er í rauninni bara fyrst og fremst fjárhagslegir þættir en við erum svolítið spurð að þessu. Við hefðum alveg áhuga á því að geta gert það að verðlauna til dæmis fólk sem hefur búið hérna lengi en það megum við hreinlega ekki gera, það eru ákveðnar jafnvægisreglur sem við verðum að uppfylla.“

Almar segir það líka gleðiefni í sjálfu sér að fá fleiri inn í sveitarfélagið þar sem fólksfækkun á höfuðborgarsvæðinu hefur verið einna mest í Garðabæ á undanförnum árum.

„Við er auðvitað ánægð með það að fólk hafi áhuga á að koma til okkar enda höfum við fengið hrós frá íbúum Garðabæjar fyrir að veita góða þjónustu í bænum.“

Hæstbjóðandi vinnur

Þá gengur úthlutun lóðanna þannig fyrir sig að farið er eftir ákveðnum skilmálum þar sem sett er upp lágmarksverð á tilboð sem er mismunandi eftir tegund húsanna.

„Svo er það í rauninni bara verðið sem ræður. Þeir aðilar sem bjóða hæst, að því gefnu að þeir uppfylli öll skilyrði, fá lóðarúthlutun.“

Að sögn Almars er hverfið að mestu tilbúið til byggingar þar sem gatnagerðin er mjög langt á leið komin.

„Þegar það er búið að klára þetta ferli, sem gerist einhvern tímann í júlí, þá fljótlega eftir það geta þeir sem hafa áhuga á farið af stað en okkur finnst mikilvægt að hafa þetta þannig að þegar við erum að bjóða byggingarlóðir til sölu að þá geti fólk hafist handa mjög fljótlega eftir að það er frágengið. Þannig að einhvern tímann á árinu 2025 getum við eflaust séð fyrstu íbúana flytja þarna inn.“

Þegar Hnoðraholt norður verður tilbúið verður farið í að skipuleggja …
Þegar Hnoðraholt norður verður tilbúið verður farið í að skipuleggja Hnoðraholt suður. Ljósmynd/Garðabær

Áfangaskipt byggingaferli

Þá verður seinni hluti Hnoðraholts norður kláraður í haust þegar enn fleiri lóðir verða boðnar út.

„Í seinni hlutanum verðum við með fleiri fjölbýlishús og hlutfallslega í lotunni í haust verðum við með meira af raðhúsum og einbýlishúsum þannig að fólk getur þá beðið spennt eftir því líka og þeir sem ekki fá úthlutað í þessari atrennu geta þá skoðað það.“

Þegar Hnoðraholt norður verður tilbúið verður næsta skref tekið sem er að bjóða út lóðir í Hnoðraholti suður en farið verður í það á næstu misserum að koma því í deiliskipulag.

„Þetta er í raun áfangaskipt. Við komum okkur vel af stað í Hnoðraholti norður og notum tímann til að skipuleggja í allri dýpt Hnoðraholt suður. Það er ekki komin tímasetning á hvenær það fer í sölu en við verðum væntanlega á þeim stað innan nokkurra ára, kannski innan tveggja ára eða svo.“

Þá segir Almar að þegar sé stórt íþróttahús á svæðinu en gert sé ráð fyrir grunnskóla og leikskóla í hverfinu líka. Fyrir þá sem hafa áhuga á að kynna sér málið nánar má nálgast frekari upplýsingar á vef Garðabæjar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert