Gylfi Þór Þorsteinsson tekur við sem teymisstjóri fjáröflunar- og kynningarsviðs Rauða krossins á Íslandi. Mun hann sinna starfinu tímabundið, en hann var nýlega ráðinn sem teymisstjóri Mannvina hjá félaginu.
Í tilkynningu Rauða krossins kemur fram að Gylfi sé vel kunnugur starfi félagsins. Hann sá um rekstur sóttvarnahúsa Rauða krossins í kórónuveirufaraldrinum og hefur sinnt sjálfboðastörfum í neyðarvörnum fyrir félagið í áraraðir.
Starfaði Gylfi áður hjá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti sem aðgerðarstjóri vegna komu flóttafólks frá Úkraínu. Áður starfaði hann um árabil við fjölmiðlun, sem dagskrárgerðamaður í útvarpi og síðar sem auglýsinga- og markaðsstjóri ýmissa þekktustu miðla landsins. Hann gegndi þá einnig starfi framkvæmdastjóra mbl.is og Eiðfaxa ásamt því að sinna störfum í ferðaþjónustu og víðar.
Gylfi tekur við af Björgu Kristjánsdóttur, sem nýlega var ráðin til Alþjóðasambands Rauða krossins í Genf til sex mánaða. Hafði hún þá sinnt starfinu frá árinu 2018.