Heilbrigðisþjónusta gerð aðgengilegri

Willum Þór Þórsson hrinti af stað kynningarátaki um fjarlausn að …
Willum Þór Þórsson hrinti af stað kynningarátaki um fjarlausn að heilbrigðisþjónustu í dag. mbl.is/Árni Sæberg

Þjónusta og ráðgjöf um heilsutengd málefni hefur verið stóraukin í símanúmerinu 1700 og á netspjalli Heilsuveru. Ýtti Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra úr vör kynningarátaki um bættan málaflokkinn í dag.

Vegvísun og ráðgjöf

Í tilkynningu frá heilbrigðisráðuneytinu kemur fram að stefnt sé að því að auka þjónustu við almenning með heilbrigðistengdri ráðgjöf og vegvísun í viðeigandi þjónustu. Það geti reynst almenningi flókið að vita hvert best sé að sækja þjónustu þegar upp koma veikindi eða slys. Nú sé það auðveldara, en fólk getur nú spurt hvert það skuli leita í síma 1700 eða á netspjalli Heilsuveru. Er þó lögð áhersla á að fólk haldi áfram að hringja í neyðarnúmerið 112 í neyðartilvikum.

Minnkar álag og bætir þjónustu

Þá kemur einnig fram í tilkynningunni að reynslan hafi sýnt að hægt sé að leysa úr sífellt stærri hluta erinda með fjarlausnum. Það sé betri þjónusta fyrir einstaklinginn og dragi jafnframt úr álagi á heilbrigðiskerfið.

„Það er mikilvægt að koma á markvissri vegvísun í viðeigandi þjónustu innan heilbrigðiskerfisins og auka þannig aðgengi að þjónustunni. Með því að efla vegvísun í síma og netspjalli eykst skilvirkni í kerfinu og þörfum einstaklinga betur mætt með réttri þjónustu á réttum stað,“ er haft eftir Willum.

Nú er hægt að fá heilbrigðisþjónustu í síma 1700 allan sólarhringinn eða á netspjalli Heilsuveru milli klukkan 8 og 22.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert