María Björk Friðriksdóttir útskrifaðist á laugardaginn úr Menntaskólanum á Akureyri við hátíðlega athöfn, sem er að vana haldin þann 17. júní. María, sem er stúdent af heilbrigðisbraut gerði sér lítið lítið fyrir og dúxaði með 9,56 í meðaleinkunn. Hún hefur haft nóg á sinni könnu samhliða náminu síðastliðið árið, þakkar vinnusemi, skipulagi og síðast en ekki síst góðra vina hópi og fjölskyldu fyrir árangurinn.
María, sem er fædd og uppalin á Akureyri, æfir fótbolta með Þór-KA, ásamt því að vinna á leikskóla. Maríu þykir starf sitt skemmtilegt, enda eru börn í miklu uppáhaldi hjá henni og segir hún fátt jafnast á við samveru með litlu frænkum sínum.
Spurð um framhaldið segir María að læknisfræði höfði mest til hennar. Hún ætlar þó fyrst að taka ár í pásu, vinna og verja góðum tíma með fjölskyldu og vinum. María stefnir á að þreyta inntökuprófið bæði hér heima og í Slóvakíu að ári liðnu. Læknisfræði er þó ekki eina námið sem höfðar til Maríu, en hún gæti vel séð fyrir sér að læra líffræði við Háskóla Íslands, ásamt því að afla sér kennsluréttinda vegna mikils áhuga hennar á að kenna börnum.
María hafði heyrt orðið dúx áður en hún hóf nám við MA, en þó misskilið merkingu orðsins á þá vegu að sá sem dúxaði væri að klúðra einhverju. „Ég hafði heyrt orð dúx, en hélt að það væri notað yfir þá sem stæðu sig illa í einhverju. Ég grínaðist því einu sinni við vinkonur mínar þegar við vorum á busaárinu, um að við myndum örugglega dúxa þetta dæmi. Ég sagði þetta haldandi að ég væri að spá fyrir einhverskonar klúðri, þar sem við vorum heldur hræddar við umfang námsins í upphafi þess,“ segir María hlæjandi.
Aðspurð um hvort hún hafi búist við því að dúxa MA segist María ekki hafa stefnt sérstaklega á það við upphaf skólagöngunnar, en eftir að hafa hlotið hæstu meðaleinkunn á 2. ári gerði hún sér grein fyrir því að slíkt væri mögulegt. Eftir því sem leið á lokaárið urðu raddir fjölskyldu og vina Maríu, sem hvöttu hana áfram með þeirri trú að hún gæti dúxað, síháværari. María segir Fólkið í kringum sig vera gífurlega stolt af árangrinum, og minnist hún sérstaklega á móður sína í því samhengi. „Ég hefði ekki getað gert þetta án mömmu, hún var kletturinn minn í þessu.“
Ein besta vinkona Maríu, Helga Viðarsdóttir, er semidúx skólans í ár með 9,54 í meðaleinkunn. María og Helga voru báðar á heilbrigðisbraut og lærðu oft saman fyrir próf, en María telur þær hafa haft mikinn styrk hvor af annarri í gegnum námið. María telur hvorki sig, né vinkonur sínar falla að hinum hinum hefðbundnu staðalímyndum sem umlykja dúxa og aðra sem standa sig vel í námi.
„Ég eyddi ekki öllu árinu lokuð inni í herbergi með nefið ofan í bókunum. Ég mætti á fótboltaæfingar og eyddi miklum tíma með fjölskyldu minni og vinum. Í rauninni náði ég oft að sameina námið og samveru með vinunum, þar sem við lærðum t.d. saman og skelltum okkur síðan í Ísbúð Brynju á eftir. Ég held að það sem skipti mestu máli, sé að sitja ekki einn lokaður af í einhverju herbergi, heldur að vera einmitt í góðu samneyti við vini sína. Þannig getur maður bæði lifað góðu félagslífi og staðið sig vel í námi.“